Starbucks ræktar eigin kaffibaunir í fyrsta sinn

Bandaríski kaffirisinn Starbucks hefur hafið kaffibaunarækt í fyrsta sinn og hefur opnað verksmiðju í Yunnan-héraði í Kína. Tilgangurinn er að auka sölu á kaffi og fá fleiri Kínverja til að skipta úr tedrykkju yfir í kaffið.

Fyrsta Starbucks-kaffihúsið var opnað í Peking árið 1999. Ellefu árum seinna eru verslanirnar orðnar yfir 800 talsins í landinu. 

Howard Schultz, stjórnarformaður fyrirtækisins, hyggst ekki láta staðar numið heldur stækka keðjuna enn frekar. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Starbucks mun rækta sitt eigið kaffi. Hingað til hefur það keypt kaffi frá bændum í yfir 30 löndum. Skv. samkomulaginu, sem var undirritað sl. föstudag, munu stjórnvöld í Yunnan verja 453 milljónum dala (um 50 milljörðum kr.) til að fimmfalda framleiðsluna á næstu 10 árum, eða í 200.000 tonn árið 2020.

Starbucks vonast til þess að kaffidrykkja muni koma til með að aukast í héraðinu og að Kína verði næst stærsti kaffimarkaður fyrirtækisins á eftir Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert