Æskuvinur Íslendings myrtur í Noregi

Norska lögreglan að störfum.
Norska lögreglan að störfum. mbl.is/Atli Steinn

„Ég hitti hann úti á götu fyrir tveimur vikum og við stóðum þar og spjölluðum saman. Hann var í góðum gír. Hann langaði mikið að eignast hund og sagðist hafði safnað sér fyrir því,” segir Jón Fannar Tryggvason.

Verdens Gang ræddi við Jón Fannar fyrir utan íbúð í Halden í Noregi þar sem Sven Erik Næss, 42 ára, var myrtur um síðustu helgi.

Höfðu þekkst í langan tíma

Jón Fannar hafði þekkt Næss síðan hann flutti til Noregs þrettán ára gamall og þeir tveir höfðu verið nánir vinir allar götur síðan.

„Hann var góður vinur og þótti vænt um vini sína. Hann gaf fjölskyldunni minni og börnunum mínum alltaf jólagjafir. Hann var einfaldlega góðhjartaður drengur,” bætir hann við.

„Þetta er mjög sorglegt og það sem gerðist var grimmilegt. Ég var á leiðinni heim á laugardaginn þegar ég sá að lögreglan var hérna. Síðan reyndi ég að hringja en hann svaraði ekki.”

Einn í haldi lögreglu

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið handtekinn, grunaður um verknaðinn. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald, þar af í tveggja vikna einangrun.

mbl.is/Atli Steinn

Lögreglan fann Næss látinn í íbúðinni klukkan 22.30 að staðartíma, eða klukkan 20.30 að íslenskum tíma, eftir að tilkynning barst um öskur þaðan.

Verjandi mannsins sem var handtekinn segir skjólstæðing sinn ekki tengjast Næss á nokkurn hátt og að hann hafi eingöngu verið í byggingunni til að hitta annan einstakling í annarri íbúð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert