Ofbeldisalda í Karachi

65 hafa látist í ofbeldisöldu í borginni Karachi í Pakistan frá því á miðvikudaginn. Þetta er mesta hrina ofbeldis í borginni undanfarin 16 ár. Lögreglu- og herafli hefur verið aukinn, en það virðist lítt duga til að stemma stigu við ástandinu.

Borgin er helsta uppskipunarhöfn herafla NATO, en þarna er skipað upp birgðum og hergögnum fyrir hermenn NATO í Afganistan. 

Ofbeldið tengist þjóðernisátökum á milli Mohajir ættbálksins, sem er í meirihluta í landinu og talar Urdu tungumálið, og Pashtun ættbálksins.

Vopnaðir menn króuðu lögreglu af seint í gærkvöldi og skothríð hófst sem endaði með því að fjórir lögreglumenn létu lífið og 30 særðust.  

Í gær var 18 manns rænt og krafist lausnargjalds, en fólkið er nú fundið heilt á húfi.

Innanríkisráðherra landsins, Manzoor Wasan, segist ekki geta gefið ítarlegar upplýsingar um hverjir beri ábyrgð á ódæðunum og ofbeldinu, en að um 100 manns hafi verið handteknir vegna gruns um aðild.

Skothríð braust út á milli tveggja hópa í íbúðarhverfi í borginni Korangi í morgun og þorðu íbúar ekki að yfirgefa heimili sín.

Um 18 milljónir manna búa í Karachi. Þangað er stöðugur straumur af fólki hvaðanæva af landinu, sem tilheyra ýmsum þjóðernisbrotum og ættbálkum.

Mikil fátækt er í sumum hverfum borgarinnar og þar er talið að flest glæpagengin eigi aðsetur. Um 20% allra verslana og þjónustuaðila lokuðu verslunum sínum á fimmtudaginn til að mótmæla því að glæpagengin innheimta af þeim svokallaðann verndartoll.

Lík fjögurra ungra manna, sem störfuðu fyrir farsímafyrirtæki, fundust í flutningabíl í Shershah fátækrahverfinu í Karachi í gær og höfðu fætur þeirra og hendur verið bundnar.

Í vösum mannanna fundust miðar sem á stóð: „Viljið þið fleiri lík?“

Mannréttindasamtök telja að 800 manns hafi verið myrtir í Karachi það sem af er þessu ári, þar af voru 300 myrtir í júlí. Í fyrra voru 748 manns myrtir í borginni.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert