Finnar hlynntir brottvísun úr evrusvæðinu

Evrur.
Evrur. mbl.is

Finnar vilja skoða þann möguleika að breyta stjórnarskrá Evrópusambandsins þannig að unnt verði að vísa löndum út úr evrusvæðinu. Þetta kemur fram í minnismiða frá finnskri þingmannanefnda gagnvar ESB, sem birtur var í dag.

Finnsku þingmennirnir lýsa þannig yfir stuðningi við tillögu Hollendinga um breytingar á stjórnarskrá ESB, en þeir vilja innleiða þann möguleika að vísa úr myntbandalaginu löndum sem verða uppvís að því að brjóta reglurnar og standa ekki við skuldbindingar sínar.

Ekki er minnst beinum orðum á Grikkland í minnismiða finnsku þingmannanefndarinnar, en miðinn var hinsvegar birtur opinberlega aðeins örfáum klukkustundum eftir að gríski forsætisráðherrann, George Papandreou, boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu um björgunarpakka ESB.

Evrópuráðið hefur undirstrikað að slík breyting á stjórnarskrá ESB verði ekki gerð nema með stuðningi allra 27 evruríkjanna. Tillögur að hugsanlegum breytingum verða teknar fyrir á fundi Evrópuráðsins þann 9. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert