Hafsjór af hungruðu fólki

Fólk að bíða eftir neyðaraðstoð í Yarmouk-flóttamannabúðunum.
Fólk að bíða eftir neyðaraðstoð í Yarmouk-flóttamannabúðunum. EPA

Hafsjór af hungruðu fólki, sem hefur jafnvel verið á flótta frá því stríðið hófst í Sýrlandi fyrir þremur árum, bíður í endalausum röðum sem hlykkjast eftir götum Yarmouk-flóttamannabúðanna. Meðfylgjandi mynd, sem tekin var 31. janúar, sýnir venjulegt fólk, börn, konur og karla, bíða eftir að fá mat og lyf. Slíkt er hins vegar af skornum skammti. Yfir 180 þúsund manns eru í búðunum og margir hafa soltið í hel. Myndin hefur nú farið víða, enda þykir hún sýna sláandi ástandið meðal saklausra íbúa landsins vel.

Búðirnar eru í Damaskus og voru fyrst reistar árið 1948 fyrir flóttamenn frá Palestínu. En frá því að styrjöldin braust út í Sýrlandi hafa búðirnar orðið yfirfullar og ástandið þar er skelfilegt. Átök milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins hafa líka orðið til þess að oft er ómögulegt að koma nauðsynjum til búðanna. 

Tugir hafa látið lífið vegna vannæringar. Fréttir hafa borist af því að flóttafólkið sé svo örvæntingarfullt að það borði gras og ketti til að halda lífi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa reynt að aðstoða. En það gengur oft ömurlega. Suma daga hafa aðeins borist 60 skammtar af mat á dag. Það hefur orðið til þess að skapa ástand eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sett upp sérstaka söfnunarsíðu fyrir flóttamennina í Yarmouk.

Á myndskeiðinu hér að neðan má sjá hvernig ástandið er í búðunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert