Samkynhneigð og stríð í Múmíndal

Það er yfirleitt líf og fjör í Múmíndalnum.
Það er yfirleitt líf og fjör í Múmíndalnum. Wikipedia

Finnar fagna í ár aldarafmæli Tove Jansson, skapara Múmínálfanna. Hún er einn farsælasti barnabókahöfundur sögunnar og hafa verurnar í dalnum góða farið út um víða veröld. Jansson var samkynhneigð og endurspeglast það, ásamt upplifun hennar af seinni heimsstyrjöldinni í bókum hennar, að sögn vinar hennar, Boel Westin, sem ræðir við breska ríkisútvarpið.  Hann gaf út bókina Tove Jansson: Life, Art, Work í janúar á þessu ári. 

Flestir ættu að þekkja Múmínpabba, Múmínmömmu og Múmínsnáðann. Í dalnum búa einnig Snorkurinn, Snorkstelpan, Snabbi, Mía litla, Snúður, Morrinn, Hattífattarnir, Pjakkur og fleiri kynlegir kvistir. 

Ljótt, bústið dýr færði henni heimsfrægð

Bækur Jansson hafa selst í milljónum eintaka og hafa verið þýddar á 44 tungumál. Frank Cottrell Boyse, sem skrifaði handritið að setningarathöfn Ólympíuleikanna árið 2012, segist hafa verið heillaður þegar hann las fyrst bók um Múmínálfana 10 ára gamall. 

„Ég gerði mér ekki grein fyrir að sögusvið bókarinnar væri til í raun og veru. Ég hélt að hún hefði búið til sögusviðið Finnland, sem var eins Narnía í mínum huga. Allar þessar ótrúlegu persónur sem voru svo undarlegar en samt svo kunnuglegar vegna þess að þú hafðir þegar hitt margar slíkar, háværan Hemúl og taugaveiklaðar Fílifjónkur.“

Foreldrar Jansson voru bæði listamenn, faðir hennar myndhöggvari og móðir hennar myndskreytti bækur. Þegar móðir hennar vann, sat Jansson oftar en ekki við hlið hennar og vann að eigin myndum. Fljótlega bætti hún orðum við myndirnar og gaf hún úr fyrstu bók sína aðeins þrettán ára gömul, Sara and Pelle and the Octopuses of the Water Sprite.

Jansson sagði að hún hefði teiknað fyrsta Múmínálfinn eftir að hafa rifist við einn af bræðrum sínum um heimspekinginn Immanuel Kant. Sagðist hún hafa teiknað ljótustu veru sem hún gat hugsað sér á vegg salernisins og undir myndina skrifaði hún nafn hans, Kant. Þetta var ljótt, bústið dýr sem síðar færði henni heimsfrægð. Ekki er þó víst að allir taki undir orð Jansson, að dýrið hafi verið ljótt, heldur hefur það vakið mikla lukku hjá ungum sem öldnum.  

Stríðið endurspeglast í bókunum

Jansson lagði stund á listnám í Stokkhólmi, Helsinki, París og Róm og sneri síðan aftur til Helsinki rétt áður en seinni heimsstyrjöldin hófst.

„Stríðið hafði mikil áhrif á Jansson og fjölskyldu hennar. Einn bræðra hennar, Per Olov, tók þátt í stríðinu. Þau vissu ekki hvar hann var, hvort hann væri öruggur eða hvort hann kæmi aftur,“ sagði Westin í samtali við BBC. 

Fyrsta bók Janson um Múmínálfana, Litlu álfarnir og stóra flóðið, eða Småtrollen och den stora översvämningen, endurspeglaði þessa erfiðu tíma. Halastjarnan, eða Kometjakten / Kometen kommer, fylgdi svo í kjölfarið.

Westin segir að kvíði og sorg Jansson hafi endurspeglast í bókunum tveimur. „Hún var þunglynd á meðan á stríðinu stóð og sást það greinilega í bókunum sem fjalla um hörmungar,“ segir Westin. „Það er ekki svo algengt að skrifa barnabók um mikið flóð. Í bókinni um halastjörnuna fara Múmínsnáðinn og Snúður í leiðangur en þeir vilja komast að því hvenær halastjarnan komi og hvort hún komi til Múmíndalsins.“

Westin bendir á að í sögunni hafi verið sagt frá verum sem yfirgefa heimili sín. „Alveg eins og fólk hér í Helsinki þurfti að yfirgefa heimili sín af ótta við sprengjur. Hún fangaði þessa stemningu í bókum sínum.“

Voru Þöngull og Þrasi Jansson og ástkona hennar?

Fyrstu bækurnar tvær vöktu ekki mjög mikla athygli. Það var aftur á móti þriðja bókin sem kom Jansson á kortið. Það var Pípuhattur galdrakarlsins í enskri þýðingu, Finn Family Moomintroll.  Þar koma til sögurnar tvær verur, Þöngull og Þrasi, sem endurspegla Jansson, og gifta konu, Vivicku Bandler, sem hún átti í stuttu og leynilegu ástarsambandi við að sögn Westin. Samkynhneigð var ólögleg í Finnlandi á þessum tíma og því varð að halda öllum samböndum leyndum.

„Þöngull og Þrasi eru alltaf saman í bókunum, haldast í hendur og hafa ferðatösku meðferðis. Innihald töskunnar er leyndarmál,“ segir Westin, en í töskunni er stór og fallegur rúbín, tákn um ást Jansson og Vikicku. Morrinn, stór og grá vera sem frystir allt sem hún snertir, eltir parið og sækist eftir ástinni sem þær hafa. 

„Hægt er að skilja þetta sem ást kvennanna Jansson og Vivicku. Verurnar tvær báru leynda ást sína í ferðatöksu og þegar þær opnuðu hana og sýndu öllum í Múmíndalnum, sýndu þær einnig öllum heiminum ást sína. Þetta er mjög falleg saga,“ segir Westin. 

Ég gæti ælt á Múmínálfana

Jansson samþykkti að semja sex myndasögubrot á viku í sjö ár fyrir dagblaðið London´s Evening News. Tveimur árum síðar voru myndasögurnar birtar í 120 dagblöðum víða um heim og náðu þær til um 12 milljón lesenda.

Nú fóru hjólin að snúast og vildi Disney meðal annars kaupa einkaréttinn á orðinu „Moomin“ en Jansson hafnaði því. Hún varð fljótlega þreytt á myndasögunum, Múmínálfunum og því að þurfa sífellt að koma með nýjar hugmyndir. „Ég vil ekki heyra um þá, ég gæti ælt á Múmínálfana,“ sagði hún.

Árið 1956 kynntist hún lífsförunaut sínum, Tuulikki Pietila, og segir Westin að í næstu bók Jansson um álfana megi greinilega sjá þessa nýju persónu í lífi hennar. Í bókinni Vetrarundur í Múmíndal, Trollvinter, kemur Tikkatú til sögunnar. „Það er Tuulikki Pietila,“ segir Westin. „Tikkatú er sá sem leiðir Múmínálfana í gegnum vetur og erfiða tíma. Þetta er bók fyrir Tuulikki Pietila og bók um hana.“

Tove Jansson lést sumarið 2001, 87 ára.

Frétt breska ríkisútvarpsins. 

)

Wikipedia
Múmíhúsið í skemmtigarðinum, Múmínheimur í Naantali, Finnlandi.
Múmíhúsið í skemmtigarðinum, Múmínheimur í Naantali, Finnlandi. Wikipedia
Tikkatú
Tikkatú Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert