Dauðastund Steenkamp rakin

Oscar Pistorius var ekki með gervifæturna á sér þegar hann skaut kærustu sínu, Reevu Steenkamp, til bana. Þetta fullyrti skotvopnasérfræðingur, sem kallaður var sem lykilvitni fyrir dóminn á 13 degi réttarhaldanna.

Verjendur Pistorius hafa undirstrikað þetta sem lykilatriði sem sýni fram á að skotárásin hafi ekki verið undirbúin að yfirlögðu ráði.

Skotvopnasérfræðingur lögreglu, Christian Mangena, segir að rannsókn á vettvangi drápsins og tilraunir sem hann gerði í kjölfarið til að endurskapa aðstæður bendi til þess að Pistorius hafi verið „á stubbunum“ þegar hann hóf skothríð gegnum baðherbergishurðina, sem leiddi til dauða Steenkamp.

Hann sagðist jafnframt telja að Pistorius hafi ekki verið fjær en 3 metrum frá hurðinni þegar hann skaut, en ekki nær en 60 cm. Reeva Steenkamp var standandi við klósettið þegar hún varð fyrir fyrsta skotinu af fjórum sem hleypt var af, og fór það í mjöðm hennar.

Mangena segir að hún hafi þá fallið aftur fyrir sig og í kjölfarið fengið skot í handlegginn og í höfuðið, en hún hafi borið báðar hendur fyrir höfuð sér til að verja sig. Pistorius hefur sjálfur sagt að hann hafi skotið án afláts, en Mangena segist telja að hlé hafi verið gert milli fyrsta og annars skots og að Steenkamp hafi ekki orðið fyrir öðru skotinu.

Þetta er í samræmi við vitnisburð nágranna, sem sagðist fyrst hafa heyrt eitt byssuskot og svo þrjú til viðbótar eftir stutt hlé. Þetta bendir einnig til þess að Steenkamp kunni að hafa haft tíma til að öskra áður en hún féll í gólfið, sem styður framburð nágranna sem sagðist hafa heyrt konu öskra.

Mangena segir það útilokað að skotunum hafi verið hleypt af í einum rykk, því ef svo væri þá hefðu öll skotsárin verið á sama hluta líkamans. Sú er ekki raunin.

„Ég er þeirrar skoðunar að eftir fyrsta skotsárið hafi hún dottið samstundis í gólfið,“ sagði Mangena. Hún hafi þá kropið ofan á tímaritabunka og reynt að verja sig en eftir þriðja og fjórða skotið hafi hún endað með höfuðið ofan á klósettinu og neðri hluta líkamans á tímaritabunkanum.

Fyrir dóminn í dag kom einnig lögreglumaðurinn Mike Sales sem rannsakaði snjallsíma og spjaldtölvu Pistoriusar. Hann sagði að kvöldið sem Reeva Steenkamp dó hafi Pistorius skoðað vefsíður fyrir notaða bíla og gjaldfría klámsíðu.

Oscar Pistorius ræðir við verjanda sinn Barry Rouxon í dómssalnum …
Oscar Pistorius ræðir við verjanda sinn Barry Rouxon í dómssalnum í dag. AFP
Skotvopnasérfræðingurinn Christiaan Mangena bar vitni fyrir dómnum í dag.
Skotvopnasérfræðingurinn Christiaan Mangena bar vitni fyrir dómnum í dag. AFP
June Steenkamp móðir Reevu Steenkamp í dómssalnum í dag.
June Steenkamp móðir Reevu Steenkamp í dómssalnum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert