Samúðarkveðjur hafa streymt til Suður-Kóreu frá ríkjum heimsins vegna ferjuslyssins sem átti sér stað síðastliðinn miðvikudag þegar ferjunni Sewol hvolfdi með 476 manns um borð. Að mestu skólabörn. Með einni undantekningu þó. Ekkert slíkt hefur borist frá stjórnvöldum í nágrannaríkinu Norður-Kóreu.
Fram kemur í frétt AFP að leiðtogar 45 ríkja hvaðanæva úr heiminum hafi sent samúðarkveðjur til stjórnvalda í Suður-Kóreu vegna slyssins. Þar á meðal Barack Obama, Bandaríkjaforseti, Vladimír Pútín, forseti Rússlands og Xi Jinping forseti Kína. Hins vegar hafi ekkert slíkt borist frá Norður-Kóreu.
Minnst var á slysið í ríkisútvarpi landsins í gær í stuttri frétt þar sem sagði að það hefði kostað mörg mannslíf. Hins vegar var lögð áhersla á að ættingjar þeirra sem hafi verið um borð í ferjunni væru suður-kóreskum stjórnvöldum reiðir vegna þess að viðbrögð við slysinu hafi ekki verið nógu hröð.
Málið hefur vakið nokkuð hörð viðbrögð í Suður-Kóreu og meðal annars verið bent á að þegar Kim Jong-Il, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi fallið frá hafi suður-kóreskir ráðamenn sent samúðarkveðju til norður-kóresku þjóðarinnar.