Níu lík í ferjunni þremur árum eftir að hún sökk

Talið er að aðgerðirnar taki þrjá daga.
Talið er að aðgerðirnar taki þrjá daga. AFP

Í dag hófust aðgerðir við að reyna að koma ferjunni Sewol upp á land en tæp þrjú ár eru síðan að hún sökk við Suður-Kóreu. Rúmlega 300 manns létu lífið þegar að Sewol sökk, flestir skólakrakkar.

Foreldrar fórnarlambanna hafa hvatt fólk til þess að biðja fyrir því að aðgerðirnar gangi vel. Ferjan liggur á um 40 metra dýpi suðvestan við strönd landsins. Fyrst átti að reyna að hífa brakið upp á síðasta ári en aðgerðunum hefur verið frestað ítrekað vegna veðurs.

Talið er að níu lík séu enn föst í ferjunni og hafa fjölskyldur fórnarlambanna krafist þess að brakinu verði komið á land í heilu lagi.

„Ég er móðir sem saknar dóttur sinnar. Vinsamlegast biðjið fyrir okkur svo við getum farið heim með Eun-Hwa,“ sagði Lee Keum-Hui, ein þeirra ættingja sem hafa búið bráðabirgðahúsnæði við bryggjuna nálægast slysstaðnum síðan að ferjan sökk.

Við bryggjuna mátti sjá fólk fylgjast með aðgerðunum í gegnum sjóauka. Um 50 fjölskyldumeðlimir fórnarlamba fóru á bátum út á haf til að fylgjast með.

Stefnt er að því að aðgerðin taki þrjá daga.

Slysið vakti gríðarlega reiði í Suður-Kóreu og viðbrögð forseta landsins helltu olíu á eldinn. Park Geun-hye hélt sig inni á heimili sínu fyrstu sjö tímana eftir slysið sem varð til þess að fjölmargir orðrómar skutu upp kollinum um hvað hún hefði verið að gera. M.a. var því haldið fram að hún hafi átt leynilegan ástafund eða verið að jafna sig eftir lýtaaðgerð.

Rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að slysið hafi að mestu verið að mannavöldum Þrátt fyrir að ferjan hafi verið í um 3 tíma að sökkva var farþegunum aldrei sagt að yfirgefa hana á meðan áhafnarmeðlimir forðuðu sér.

Skipstjórinn Lee Jun-Seok var dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna málsins. 14 aðrir áhafnarmeðlimir voru dæmdir í fangelsi.

Ættingjar fórnarlambanna fylgjast með aðgerðunum í dag.
Ættingjar fórnarlambanna fylgjast með aðgerðunum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert