Suðurkóreska strandgæslan birti í dag myndband sem sýnir buxnalausan skipstjóra ferjunnar Sewol flýja frá borði, á meðan hundruð skólabarna voru enn föst inni í ferjunni. Mikil og vaxandi reiði er í Kóreu vegna hins hörmulega slyss.
Myndbandið sem birt var í dag er 10 mínútna langt. Það var tekið af björgunarsveitarmönnum, og sjónvarpað á YTN-sjónvarpsstöðinni. Þar sést skipstjórinn, hinn 69 ára gamli Lee Joon-seok, íklæddur peysu og nærbuxum, forða sér stuttu áður en ferjan sökk hinn 16. apríl.
Áður hefur verið greint frá því að skipstjórinn var sjálfur ekki við stjórnvölinn þegar ferjan sökk, heldur óreyndur þriðji stýrimaður. Ekki fylgir sögunni hvers vegna skipstjórinn var á nærbuxunum.
15 úr áhöfn ferjunnar sitja í gæsluvarðhaldi, en þau eiga yfir höfði sér ákæru fyrir vanrækslu og fyrir að yfirgefa farþegana, sem flestir voru börn að aldri.
Aðstandendur hinna látnu hafa gagnrýnt harðlega viðbrögð við slysinu. Þau telja að tafir á björgunaraðgerðum hafi orðið til þess að margir dóu sem hefði verið hægt að bjarga. Forsætisráðherra landsins, Chung Hong-Won, sagði af sér í gær vegna slyssins.
Skipstjórinn hefur víða verið fordæmdur á netinu eftir að myndbandið var birt í dag. „Sjáið skipstjórann flýja skipið buxnalaus. Aumkunarvert. Ég trúi því ekki að hann hafi ekki hugsað um öll börnin sem voru föst á meðan hann flýtti sér að bjarga eigin skinni,“ sagði einn netverjinn.
476 voru um borð þegar ferjunni hvolfdi og hún sökk. Staðfest tala látinna er 189, flest þeirra voru gagnfræðaskólanemar. 113 er enn saknað. Kafarar unnu af kappi að björgunaraðgerðum alla helgina, en slæmt veður og hættulegar aðstæður hafa gert þeim erfitt fyrir.