Kólumbíubúar kjósa sér forseta

Kólumbíubúar kjósa sér nýjan forseta í dag en afar mjótt er á munum milli þeirra tveggja sem berjast um embættið. Er talað um að forsetakosningarnar séu öðru fremur þjóðaratkvæðagreiðsla um friðarviðræður við skæruliðahreyfinguna FARC.

Forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, sækist eftir endurkjöri en honum er mjög annt um að binda enda á hálfrar aldar baráttu við FARC (Fuerzas Armadas Revolucionarias de Colombia).

Oscar Ivan Zuluaga, sem sækist einnig eftir forsetaembættinu hefur lengi verið andsnúinn friðarviðræðum. Hann segir nú að hann myndi semja en það yrði bundið hörðum skilmálum.

Talið er að yfir 220 þúsund manns hafi látist í borgarastríðinu þar sem stjórnvöld hafa barist við skæruliða, uppreisnarmenn og glæpahópa. Um fimm milljón manna hefur þurft að flýja heimili sín vegna átakanna.

Í fyrri umferð forsetakosninganna þann 25. maí fengu þeir Zuluaga og Santos flest atkvæði. Zuluaga fékk 29% og Santos 26%. Þeir voru áður samherjar í stjórnmálum og voru ráðherrar í ríkisstjórn á tíma Alvaro Uribe í embætti forseta á síðasta áratug. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert