Heil fjölskylda fórst með flugvélinni

Vél Air Algerie tók á loft frá Ouagadougou flugvelli í …
Vél Air Algerie tók á loft frá Ouagadougou flugvelli í Búrkína Fasó. AFP

Íbúar smábæjarins Menet í Frakklandi eru harmi lostnir eftir að fregnir bárust af því að heil fjölskylda úr bænum var um borð í alsírsku flugvélinni sem brotlenti í Sahara-eyðimörkinni í Malí í gær.

Flak vélarinnar fannst í gærkvöldi og í morgun var staðfest að enginn lifði slysið af. Talið er að slæmt veður hafi grandað vélinni, en Francois Hollande Frakklandsforseti sagði frá því fyrir stundu að annar af flugritum vélarinnar væri fundninn og ætti rannsókn á honum að leiða í ljós hvað gerðist.

Frönsku hjónin Bruno Cailleret og Caroline Boisnard voru á heimleið frá Búrkína Fasó ásamt börnum sínum, Elno 14 ára og Chloe 10 ára, þegar flugvélin hrapaði. Móðuramma barnanna var einnig með þeim í för. 

Þetta segir talskona bæjarstjórnar Menet, þar sem aðeins búa 550 manns. „Bæjarbúar eru allir niðurbrotnir. Við þekktum öll fjölskylduna, þau búa beint á móti ráðhúsinu. Við eigum erfitt með að trúa þessu, þetta er eins og martröð,“ segir talsonan, Denise Labbe.

Vélin frá Air Algeria á leið AH5017 tók á loft frá Ouagadougou í Búrkína Fasó á leið til Alsír, með 116 manns um borð, þar af 51 Frakka. Auk þess voru 25 Búrkínar, 8 Líbanar, 6 Alsíringar, 6 Spánverjar, 5 Kanadamenn, 4 Þjóðverjar og 2 frá Lúxemborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert