Henti manni fyrir lest

AFP

Rúmlega sextugur karlmaður var myrtur í New York í gær en honum var ýtt fyrir lest af óþekktum manni. Lögreglan hefur birt myndskeið af morðingjanum en hans er nú leitað. 

Fórnarlambið, Wai Kuen Kwok, var að bíða eftir lest í Bronx ásamt eiginkonu sinni en þau voru á leiðinni í Kínahverfið og ætluðu að taka D-lestina á 16. stræti. Morðinginn henti Kwok á brautarteinana skömmu áður en lestin kom inn á brautarstöðina rétt fyrir klukkan níu um morguninn, klukkan 14 að íslenskum tíma, og svo virðist sem fórnarlambið og morðinginn hafi ekki þekkst.

Lögreglan birti í gær myndskeið af meintum morðingja sem hvarf af vettvangi með strætó. Á myndskeiðinu sést maður klæddur í svartan jakka og dökkan bol fara út úr strætó og fara inn í búð og reykja sígarettu er hann yfirgefur svæðið. Lögreglan hefur heitið hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar um málið tvö þúsund Bandaríkjadölum. 

Á hverju ári deyja tugir í neðanjarðarlestarkerfi New York-borgar, annaðhvort af slysförum eða fólk fyrirfer sér. En ekki hafa komið upp morð af þessu tagi, það er að ókunnugur maður henti öðrum fyrir lest, síðan í desember 2012 er tvær slíkar árásir voru gerðar. Hinn 28. desember það ár henti kona indverskum innflytjanda fyrir lest í Queens og 3. desember lenti maður fyrir lest eftir að hafa slegist við vitfirrtan mann á brautarpalli.

Hér er hægt að skoða myndskeiðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert