Jólamartröð í Sydney

Lindt kaffihúsið í fjármálahverfi Sydney er með vinsælustu kaffihúsum borgarinnar og á þessum tíma árs er þar yfirleitt þétt setinn bekkurinn enda fjölmargir á ferð í tilefni jólanna. En í dag fór af stað jólamartröð sem ekki hefur enn tekið enda. Vopnaður maður heldur fólki í gíslingu á kaffihúsinu og ekki er vitað hversu margir eru þar inni. Maðurinn segist hafa komið fyrir fjórum sprengjum, tveimur inni á staðnum og tveimur annars staðar í borginni. Hefur hann komið fyrir íslömskum borða á kaffihúsinu en þar fyrir neðan má lesa „Gleðileg jól“.

„Þetta er áfall fyrir alla,“ segir Goldie Jamshidi sem vinnur þarna. „Ég kom til vinnu og frétti þá hvað hafði gerst,“ segir hann.

Fimm gíslar hafa flúið kaffihúsið, þar á meðal tvær starfsstúlkur á kaffihúsinu. Hundruð vopnaðra lögreglumanna hafa girt svæðið af og víða má sjá fólk taka myndir og deila á samfélagsmiðlum. 

Í september jók ástralska ríkisstjórnin viðbúnað vegna hryðjuverkaógnar í landinu og lögregla leitaði á nokkrum stöðum að meintum hryðjuverkamönnum. Tugir Ástrala hafa tekið þátt í heilögu stríði meðal öfgahópa í Sýrlandi, þar á meðal Ríki íslams.

„Þetta er eiginlega yfirþyrmandi, sérstaklega í ljósi þess að fyrir nokkrum mánuðum var rætt um að afhöggva mann á Martin Place (en Lindt kaffihúsið er á torginu),“ segir Rebecca Courtney, skrifstofumaður í hverfinu. 

Fyrr um daginn hafði lögregla rýmt Óperuhúsið í Sydney vegna ótta við hryðjuverk og var hætt við sýningar þar.  

Fólk sem starfar í verslunum á Martin Place og nágrenni segja að gíslatakan nú muni væntanlega hafa mikil áhrif á jólaverslunina í ár. Það er afar vinsælt meðal fjölskyldufólks og ferðamanna að skoða risastórt jólatré á torginu en búast má við að mun færri munu hætta sér þangað nú fyrir jólin en alla jafna á þessum árstíma.

En einhverjir hafa nýtt sér ástandið því á Twitter er því haldið fram að leigubílafyrirtækið Uber hafi rukkað farþega um fjórfalt gjald ef fólk vildi komast út úr fjármálahverfi Sydney eftir að tilkynnt var um gíslatökuna. Síðar gaf Uber út tilkynningu um að fyrirtækið myndi bjóða fólki upp á ókeypis akstur út úr hverfinu svo Sydney-búar myndu komast heilir á höldnu til síns heima. Jafnframt sé byrjað að endurgreiða þeim sem þurftu að greiða hærra gjald í nótt.

Gísl á kaffihúsinu
Gísl á kaffihúsinu AFP
Lögreglan gætir Martin Place vandlega
Lögreglan gætir Martin Place vandlega AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert