Kerfið brást í gíslatökunni

Lögreglumenn standa fyrir utan kaffihúsið í Sydney á meðan á …
Lögreglumenn standa fyrir utan kaffihúsið í Sydney á meðan á gíslatökunni stóð 15. desember. AFP

Átján ábendingar bárust sérstakri neyðarlínu um Man Haron Monis sem tók 18 manns í gíslingu í Sydney í desember en yfirvöld brugðust ekki við þeim. Þetta er niðurstöðu skýrslu um atburðina en Tony Abbott, forsætisráðherra, segir kerfið hafa brugðist.

Símtölin bárust dagana 9.-12. desember í fyrra en þau vörðuðu öll vafasamt efni sem Monis hafði sett á Facebook-síðu sína. Þremur dögum síðar var hann skotinn til bana af lögreglu eftir að hann hafði haldið átján manns í gíslingu á kaffihúsi í Sydney. Tveir gíslanna létust.

Síðar kom í ljós að Monis var kunnur leyniþjónustu landsins og honum hafði nýlega verið sleppt lausum til reynslu. Abbott forsætisráðherra sagði kerfið hafa brugðist almenningi þegar skýrsla um atburðarásina kom út í dag.

„Augljóslega þá hefði þetta skrímsli ekki átt að vera í samfélaginu okkar. Það hefði ekki átt að hleypa honum inn í landið. Það hefði ekki átt að sleppa honum til reynslu. Hann hefði ekki átt að vera með byssu og hann hefði ekki átt að verða róttækur,“ sagði Abbott.

Í skýrslunni kemur fram að símtölin hafi verið rannsökuð af lögreglu og leyniþjónustu en færslurnar á Facebook þótti þeim ekki gefa ástæðu til að ætla að Monis hygði á árás. Því var öryggismati á honum ekki breytt.

Þrátt fyrir orð Abbott var niðurstaða skýrslunnar að ákvarðanir yfirvalda, hvort sem var á sviði innflytjendamála, lögreglu eða leyniþjónustu, hafi verið réttmætar miðað við aðstæður.

Frétt Sky News af skýrslunni um aðdraganda gíslatökunnar í Sydney

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert