Tori Johnson, framkvæmdastjóri kaffihússins í Sydney, reyndi að taka byssuna af Man Haron Monis við lok umsátursins í gær. Hann var annar þeirra sem féll síðar fyrir hendi mannsins. Honum er lýst sem undraverðum félaga, rólegri og mjög blíðri sál.
Foreldrar Johnson sendu frá sér tilkynningu eftir andlát hans. Þar lofa þau „fallega drenginn“ og hvetja fólk til að biðja fyrir friði á jörðu. „Við erum svo stolt af syni okkar. Hann er farinn af þessari jörðu en lifir að eilífu í minningum okkar sem undraverður félagi, sonur og bróðir.“
Johnson var 34 ára og hafði starfað á kaffihúsinu í rúmlega tvö ár. „Hann var ástúðlegur, rólegur og mjög blíð sál, sannur herramaður,“ er haft eftir vinum hans. Hann lætur eftir sig maka.
Peter Manettas vann með Johnson í tæplega sjö ár og lýsir félaga sínum sem óeigingjörnum leiðtoga.
Þegar Johnson heyrði að hinn sex ára Henry Hinchcliff hefði aldrei borðað páskaegg, vildi hann gjarnan bregðast við því. Drengurinn er með sjaldgæfan sjúkdóm og verður því að forðast margar fæðutegundir.
Hann þarf að forðast flest sælgæti en en getur borðað 85% súkkulaðið frá Lindt. Því miður er ekki hægt að fá páskaegg úr súkkulaðinu en Johnson ákvað að gera eitt slíkt fyrir drenginn. Johnson hitti Hinchcliff og fjölskyldu hans aðeins einu sinni en haft er eftir móður drengsins að góðmennska Johnson hafi sett mark sitt á fjölskylduna.
Skýldi óléttri vinkonu sinni á kaffihúsinu