Slapp í gegnum glufu í kerfinu

Man Haron Monis.
Man Haron Monis. AFP

Man Haron Monis var sleppt gegn tryggingu fyrir einu ári síðan. Hann var grunaður um að hafa átt þátt í hrottalegu morði á eiginkonu hans og þá var hann einnig sakaður um nokkur kynferðisbrot.

Yfirvöld í Ástralíu viðurkenndu í morgun að Monis hefði „sloppið í gegnum glufu“ í kerfinu þrátt fyrir alvarlegar ásakanir og hegðun sem hefði átt að hringja bjöllum.

Noleen Hayson Pal, þrítug eiginkona Monis, var myrt á hrottalegan hátt í apríl árið 2013. Hún var stungin 18 sinnum og síðan var kveikt í henni.

Monis kom til Ástralíu árið 1996 og fékk hæli sem pólitískur flóttamaður. Saksóknari taldi sig ekki hafa nægilega góðar sannanir svo hægt væri að dæma hann fyrir morðið á Pal og sleppti honum gegn tryggingu jafnvel þó að hann væri með fjölda kæra á bakinu vegna meintra kynferðisbrota. Talið er að brotin hafi verið framin þegar hann reyndi fyrir sér sem „andlegur græðari.“

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástraliu, lýsti Monis sem andlega veikum öfgamanni sem ætti sér langa  ofbeldissögu blindaður af öfgastefnu og hefði verið andlega veikur.

Monis sendir fjölskyldum látinna hermanna særandi bréf fyrir sjö árum. Hann skrifaði á vefsíðu sína að börnin hans hefðu verið tekin frá honum af áströlskum yfirvöldum og mátti hann að eigin sögn ekki hafa samband  við þau.

Á vefsíðunni, sem lokað var í morgun, mátti meðal annars sjá myndir af látnum arabískum börnum. Þar var einnig að finna þennan texta: „Þetta er sönnun fyrir hryðjuverkum Bandaríkjanna og tengslum þeirra innan Ástralíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert