Minntust fórnarlambanna í Sydney

Ættingjar og vinir kvöddu fórnarlömb gíslatökumannsins á Lindt kaffihúsinu í Sydney í dag en byrjað var að fjarlægja blómahafið á torginu við kaffihúsið í dag. Stefnt er að því að koma þar fyrir varanlegum minnisvarða um gíslatökuna sem stóð yfir í rúmar sextán klukkustundir.

Gíslatökumaðurinn Man Haron Monis, lést í umsátrinu en hann hélt 17 manns í gíslingu á kaffihúsinu í síðustu viku. Gíslarnir tveir sem létust þegar lögreglan réðst til atlögu unnu á kaffihúsinu, Katrina Dawson, 38 ára og framkvæmdastjóri kaffihússins, Tori Johnson, 34 ára.

Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, segir að í kjölfar gíslatökunnar á Lindt kaffihúsinu á Martin Place hafi hryðjuverkahætta aukist í Ástralíu en svo virðist sem hótanir um hryðjuverk þar í landi verði sífellt háværari.

Þjóðaröryggisráð Ástralíu fundaði í dag og var upplýst um þetta þar, að sögn Abbotts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert