Ferðaritanum bjargað

AFP

Indónesískir kafarar hafa komið á land með flugrita þotu AirAsia sem brotlenti í Jövuhafi með 162 um borð hinn 28. desember. Þetta eykur líkurnar á því að upplýst verði hvað olli slysinu. Um er að ræða ferðarita flugvélarinnar sem skráir til dæmis flughraða og flughæð, hröðun, snúning vélar, hita innan vélar og utan og svo framvegis.

Yfirmaður leitarinnar, Bambang Soelistyo, segir að flugritinn hafi fundist undir braki vængs vélarinnar en kafarar leita enn hins flugritans sem geymir hljóðupptökur. Hann tekur upp allt hljóð í flugstjórnarklefanum, þar á meðal samtöl áhafnarinnar, samskipti hennar við flugumferðarstjórn og ýmis hljóð frá flugvélinni sjálfri. Flestir hljóðritar geyma síðustu þrjátíu mínúturnar af flugferðinni en stafrænir hljóðritar geta geymt allt að tveggja klukkustunda langa hljóðupptöku. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert