Hundruð við jarðarför árásarmannsins

Nokkur hundruð manns voru samankomin í og við moskuna við Dortheavej í Kaupmannahöfn í dag við jarðarför Omar Abdel Hamid el-Hussein sem danska lögreglan skaut til bana á sunnudaginn eftir að hann hafði hafið skotárás á kaffihúsi þar sem ráðstefna um tjáningarfrelsið fór fram og síðar við bænahús gyðinga í borginni þar sem tveir létu lífið. Fimm lögreglumenn særðust ennfremur í árásunum.

Fram kemur á fréttavef danska dagblaðsins Politiken að fjöldi manns hafi þurft að vera fyrir utan moskuna og hafi beðist fyrir þar á meðan bænahald fór fram innandyra. Ennfremur segir að tvöfalt fleiri hafi verið viðstaddir jarðarförina en við hefðbundið bænahald á föstudegi. Svo virtist sem el-Hussein hafi átt stóran vinahóp sem teldi að sama hvað fólk gerði af sér ætti það rétt á íslamskri jarðarför. Fjölmargir voru að sama skapi viðstaddir líkfylgdina. Ekki síst ungt fólk sem huldi andlit sín með sólgleraugum eða treflum.

Þá segir að um 400 manns hafi verið viðstaddir þegar líkkista el-Hussein var komið fyrir í gröfinni sem tekin hafði verið fyrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert