Lögmennirnir iðrast einskis

Leslee Udwin, leikstjóri India's Daughter, hefur biðlað til ráðamanna um …
Leslee Udwin, leikstjóri India's Daughter, hefur biðlað til ráðamanna um að snúa við banninu gegn myndinni á Indlandi. AFP

Indversku lögmannasamtökin funduðu í dag til að ákveða til hvaða aðgerða ætti að grípa vegna tveggja lögmanna sem fóru niðrandi orðum um konur í viðtölum vegna heimildarmyndarinnar India's Daughter.

Kvennasamtök hafa farið fram á að mennirnir verði ákærðir vegna ummæla sinna, en þeir eru verjendur fjögurra manna sem bíða dauðarefsingar fyrir að hafa nauðgað og myrt 23 ára gamalli konu í Delhi árið 2012.

Ummælum lögmannanna, ML Sharma og AK Singh, var sjónvarpað á sjónvarpsstöðinni NDTV áður en heimildarmyndin var bönnuð á Indlandi.

Í myndinni segir Sharma að konur eigi sér engan stað í indversku þjóðfélagi, en Singh segir að það myndi ekki snerta hann að brenna ógifta dóttur sína eða systur ef þær hegðuðu sér ósæmilega.

Báðir mættu mennirnir í þáttinn Dialogues á NDTV í gær og virtust ekki skammast sín. Singh sagði gagnrýnendur sína fordómafulla og að honum hefðu borist margar stuðningsyfirlýsingar. Sharma neitaði því að hafa brotið af sér og sagði heimildarmyndagerðarkonuna Leslee Udwin hafa snúið út úr því sem hann sagði með því að birta aðeins hluta þess.

Þá sagði Sharma að Udwin hefði framið lögbrot þegar hún tók viðtal við skjólstæðing sinn, Mukesh Singh, ökumann strætisvagnsins sem var vettvangur hroðaverksins.

Mikil reiði ríkir á Indlandi vegna kynferðisglæpa í landinu. Í gær réðust þúsundir manna inn í öryggisfangelsi í ríkinu Nagaland í norðausturhluta landsins og myrtu mann sem var sakaður um nauðgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert