Földu bréfin og létu sig hverfa

Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum ganga í gegnum …
Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum ganga í gegnum öryggishlið á Gatwick flugvelli þann 17. febrúar. AFP

Fjölskyldur bresku unglingsstúlknanna þriggja sem taldar eru hafa stungið af til að ganga til liðs við Ríki íslams, gagnrýna lögregluna harðlega fyrir að hafa ekki varað þær við. Vinkona þeirra stakk af í desember. Fjölskyldurnar fengu engar upplýsingar um málið en lögreglan afhenti hins vegar stúlkunum sjálfum bréf sem þær áttu að afhenta foreldrum sínum. Það gerðu þær ekki. Þær földu bréfin og létu sig hverfa.

Fjölskyldurnar segja að hefðu þær vitað að vinkona stúlknanna hefði stungið af hefðu þær getað verið á varðbergi og komið í veg fyrir að stúlkurnar færu. Þá saka fjölskyldurnar lögregluna um að hafa leynt þessari forsögu málsins eftir að í ljós kom að stúlkurnar hefðu farið úr landi.

Stúlkurnar þrjár bjuggu allar í London og gengu í sama skóla. Þær eru aðeins fimmtán og sextán ára gamlar og heita Shamima Begum og Kadiza Sultana og Amira Abase. Þær fóru frá Austur-London í síðasta mánuði til Tyrklands og þaðan fóru þær inn á svæði í Sýrlandi sem er undir yfirráðum Ríkis íslams.

Fjölskyldur stúlknanna segja í viðtali við Guardian að þær hafi upplifað hreina martröð eftir að stúlkurnar fóru. Þær segja engan hafa grunað að stúlkurnar væru að íhuga að stinga af og að þær aðhylltust öfgahreyfinguna.

Hussen Abase, faðir Amiru, segist líða eins og hann hefði fengið dauðadóm þegar hann frétti af hvarfi dóttur sinnar.

Fjölskyldurnar vita ekkert hvaðan stúlkurnar fengu peninga til að kaupa flugmiða til Tyrklands á leið sinni til að ganga í raðir ógnvænlegustu hryðjuverkasamtaka heimsins í dag.

Þá segja þær að lögreglan hafi brugðist. Hún hafi ekki sagt þeim frá því að fimmtán ára skólasystir stúlkunnar, sem hvarf tveimur mánuðum fyrr, hefði farið til Sýrlands til að ganga til liðs við Ríki íslams. Þá gagnrýna þær að lögreglan hafi ekki afhent þeim persónulega mjög mikilvægar upplýsingar tólf dögum áður en stúlkurnar hurfu. 

Er skólasystir stúlknanna, sem er fimmtán ára, hvarf í desember, hóf Lundúnalögreglan að rannsaka málið. Lögreglan ræddi við nemendur og fann út að sjö nemendur skólans væru nánir vinir stúlkunnar. Meðal þeirra voru Kadiza, Amira og Shamima.

Í frétt Guardian segir að lögreglan gangist við því að hafa skrifað bréf til foreldranna þar sem fram kom að dætur þeirra væru vinkonur stúlkunnar sem hvarf í desember og að lögreglan vildi fá að ræða við þær um hvarf hennar. En í staðinn fyrir að afhenta foreldrunum bréfin lét lögreglan stúlkurnar sjálfar fá þau. Það var 5. febrúar. Stúlkurnar földu bréfin í skólabókum inni í svefnherbergum sína. Bréfin fundust eftir að þær hurfu þann 17. febrúar.

Samkvæmt frétt Guardian er líklegt að yfirmaður lögreglunnar, Bernard Hogan-Howe, þurfi að gefa skýrslu fyrir þingnefnd vegna þessa.

„Við hefðum geta komið í veg fyrir þetta ef við vissum að lögreglan væri að rannsaka möguleg tengsl við hryðjuverkasamtök og ef hún hefði sagt okkur hversu alvarlegt ástandið væri... en við fengum engar upplýsingar,“ segir Renu Begum, systir Shamimu.

Fjölskyldurnar halda því fram að lögreglan hafi fengið heimilisföng stúlkanna hjá skólanum viku áður. Þær skilja ekki hvers vegna svo mikilvægar upplýsingar bárust þeim ekki.

„Lögreglan vanrækti okkur, skólinn vanrækti okkur. Þetta hefði að sjálfsögðu kveikt viðvörunarbjöllur hjá mér, ég hefði komið í veg fyrir að hún færi,“ segir Hussen Abase. „En þeir vöruðu okkur ekki við, þeir höfðu ekki einu sinni samband.“

Hann vonast enn til að sjá dóttur sína aftur.

Tilkynnt var um hvarf stúlknanna þann 17. febrúar. Lundúnalögreglan hóf þegar leit sem teygði anga sína víða um heim. Stúlkurnar fóru um borð í flugvél þennan dag en þær voru þá í vetrarfríi í skólanum. Þær flugu frá Gatwick til Tyrklands. Meðal þess sem hefur verið gagnrýnt er hvers vegna landamærayfirvöld kveiktu ekki á perunni að sjá þrjár kornungar stúlkur einar á ferðalagi.

Fjölskyldur stúlknanna segja engar vísbendingar hafa verið um að þær væru að aðhyllast öfgar þær sem Ríki íslams stendur fyrir. „Við höfðum enga ástæðu til að gruna þær um eitthvað misjafnt. Þetta eru góðar stelpur, góðir nemendur,“ segir Renu Begum.

Hún segist hafa fundið bréf lögreglunnar í herbergi systur sinnar. Hana hefði strax grunað hið versta. 

Ljóst er að stúlkurnar höfðu undirbúið ferðina um tíma. Hussen Abase telur að bréf lögreglunnar hafi ýtt við þeim að setja áætlun sína í framkvæmd fyrr en ella.

Talið er að stúlkurnar hafi komist í samband við fólk á netinu og þar hafi þær fengið upplýsingar og smám saman farið að aðhyllast málstað Ríkis íslams. Þær hafi m.a. komist í tengsl við slíkt fólk í gegnum samfélagsmiðla. 

Bréf lögreglunnar er dagsett 2. febrúar og fengu stúlkurnar það í hendur þremur dögum síðar. Í bréfinu segir m.a.: „Mér skilst að dóttir þín hafi þekkt [stúlkuna sem hvarf]. Það er mitt hlutverk að vita meira um [stúlkuna sem hvarf] og hvers vegna hún hafi ákveðið að yfirgefa landið.

Ég er að reyna að safna upplýsingum sem gætu hjálpað okkur að finna hana og koma henni aftur til fjölskyldu sinnar. Því bið ég um leyfi til að ræða við dóttur þína.“

Þá sagði einnig: „Með leyfi skólans hef ég rætt við barn þitt og útskýrt ofangreindar ástæður fyrir því að ég þarfnist hjálpar þess.“

Lögreglan heyrði ekkert frá foreldrunum þar sem stúlkurnar afhentu þeim aldrei bréfin. Þetta varð ekki til þess að lögreglan hefði frumkvæði að því að ræða við foreldrana um málið, segir í frétt Guardian.

Lögreglan segir að ekkert hafi komið fram sem hefði gefið vísbendingu á þessum tíma um að stúlkurnar væru sjálfar í hættu.

Frétt Guardian.

Stúlkurnar þrjár með farangur sinn á Gatwick flugvelli.
Stúlkurnar þrjár með farangur sinn á Gatwick flugvelli. AFP
Fjölskyldur Amiru Abase and Shamimu Begum ræddu við fjölmiðla eftir …
Fjölskyldur Amiru Abase and Shamimu Begum ræddu við fjölmiðla eftir að stúlkurnar hurfu. AFP
Abase Hussen, faðir Amiru Abase.
Abase Hussen, faðir Amiru Abase. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert