Þvinga hvort annað í eitthvað óþægilegt

Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn í kvöld.
Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lið Njarðvíkur er komið upp við vegg eftir eins stigs tap gegn Val á Hlíðarenda í kvöld, 68:67. Njarðvíkingar verða því að vinna næsta leik til að knýja fram oddaleik í undanúrslitaeinvígi liðanna á Íslandmóti karla í körfubolta.

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum ekki ánægður með úrslitin í leiknum. Við ræddum við Benedikt eftir leik:

Njarðvík er komið upp við vegg. Tveir tapleikir í röð og lítið skorað. Hvað veldur?

„Hér eru tvö lið að spila hörkuvörn og lítið skorað. Við fórum yfir 100 stigin í fyrsta leik en annars hafa þeir verið í kringum 80 stig í hinum tveimur leikjunum við þá. Bæði lið eru að djöflast í hvort öðru og liðin eru að reyna þvinga hvort annað í eitthvað sem þeim finnst óþægilegt að gera og báðum liðum er að ganga vel með það."

Nú er ljóst að vörn Vals er ansi sterk og Njarðvík á í vandræðum með að skora hjá þeim. Hvað þarf Njarðvík að gera til að brjóta þessa vörn upp og vinna leikinn á laugardag?

„Valur er eitt besta varnarlið síðari ára. Þeir eru með frábæra varnarmenn. Við vissum að það yrði erfitt að skora og sækja á þá. Við þurfum að klára betur inn í teig. Milka þarf að gera betur inni í teig þegar hann er kominn með bakvörð á sig. Sama á við um bakverðina. Þeir þurfa að refsa og búa meira til."

Þið tapið með minnsta mun í kvöld og hefðuð hæglega getað stolið þessum sigri. Hvað þarf að lagast svo þetta detti Njarðvíkurmegin?

„Við þurfum að taka betri ákvarðanir sóknarlega og enda sóknirnar með góðum skotum. Um leið og við förum í léleg skot eða látum þröngva okkur í léleg skot þá fáum við hraðaupphlaup í bakið og þeir refsa og skora auðveldar körfur.

Hver auðveld karfa á svona velli þar sem er lágt stigaskor er gulls ígildi. Þetta er það sem við þurfum að takmarka. Þannig að við þurfum að klára sóknirnar okkar til að koma í veg að fá refsingu í bakið."

Hvernig er staðan á leikmönnum. Eru einhver meiðsli eða hnjask?

„Það er bara eitthvað sem hefur verið að angra menn í töluverðan tíma. Það er bara ekkert í boði að vera spá í því núna og menn bara spila."

Hvað viltu sjá þína leikmenn gera betur í næsta leik?

„Ég myndi alveg vilja sjá mína menn hitta betur. Við erum 6 af 30 í 3 stiga í kvöld. Ef við ætlum í 100 stig eins og í fyrsta leik þá þurfum við að hitta betur hérna fyrir utan 3 stiga. Bara það myndi gera þetta allt þægilegra því þeir vega rosalega í svona leikjum þar sem stigaskorið er lágt," sagði Benedikt í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert