65 létust í skjálftanum í Nepal

Að minnsta kosti 65 létust og tæplega tvö þúsund slösuðust í jarðskjálfta upp á 7,3 stig í Nepal í gær. Björgunarstarf heldur áfram í landinu eftir tvo harða jarðskjálfta á rúmum tveimur vikum sem hafa kostað yfir 8 þúsund lífið. Óttast er að mun fleiri hafi látist í Nepal í gær en í Indlandi létust 17 manns í skjálftanum en skjálftinn fannst í Indlandi, Tíbet og Bangladess. Einn lést í Tíbet.

Enn er leitað að bandarískri björgunarþyrlu sem hvarf með átta um borð í gær.

Héruðin Dolakha og Sindhupalchowk, austur af Katmandu, urðu verst úti í skjálftanum í gær en í bænum Charikot létust 20.

Þúsundir íbúa sváfu úti í nótt af ótta við frekari skjálfta en alls hafa yfir 8.200 farist í jarðskjálftum í Nepal undanfarnar vikur. Gríðarlegur fjöldi hefst við í neyðarskýlum eða úti við þar sem fjölmörg hús hafa hrunið í náttúruhamförunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert