15 ára drengur undirbjó hryðjuverkaárás

Drengurinn í réttarsalnum. Hann er aðeins fimmtán ára.
Drengurinn í réttarsalnum. Hann er aðeins fimmtán ára. AFP

Réttarhöld hófust í Austurríki í dag yfir fimmtán ára dreng sem sagður er hafa tengsl við íslamska öfgamenn og er sakaður um að hafa ætlað að sprengja lestarstöð í borginni í loft upp. Hann á allt að fimm ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Réttarhöldin fara fram í borginni Sankt-Poelten þar sem drengurinn býr.

Drengurinn var handtekinn í október á síðasta ári. Þá var hann aðeins fjórtán ára gamall. Hann er sagður hafa verið í sambandi við hryðjuverkamenn innan Ríkis íslams og Al-Qaeda

Drengurinn er m.a. sakaður um að hafa leitað sér upplýsinga um hvernig búa eigi til sprengju á vefsíðu Al-Qaeda. Tilgangurinn er sagður hafa verið að gera árás á Vínarborg, segir í dómsskjölunum.

Samkvæmt skjölunum flutti drengurinn til Austurríkis frá Tyrklandi árið 2007. Hann sagður hafa viljað ganga til liðs við uppreisnarmenn í Sýrlandi. 

Lögreglan handtók drenginn er hann hafði leitað fyrir sér með kaup á efnum til sprengjugerðar. Er hann grunaður um að hafa ætlað sér að sprengja sprengjur á opinberum stöðum, m.a. á Westbahnhof-lestarstöðinni í Vín.

Lögmaður piltsins segir að hann hafi aðeins verið að „leika sér með þá hugmynd“ að búa til sprengju. Hann hefur verið í varðhaldi frá því í janúar.

Fjölmiðlar halda því fram að hryðjuverkamenn Ríkis íslams hafi boðið piltinum 25 þúsund evrur, 3,7 milljónir króna, fyrir að framkvæma árásina.

Talið er að um 200 manns hafi yfirgefið Austurríki til að ganga til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi og Írak. Um 70 þeirra hafa svo snúið heim á ný og eru nokkrir þeirra í gæsluvarðhaldi.

Dómshúsið í St Poelten þar sem réttarhöld yfir piltinum fara …
Dómshúsið í St Poelten þar sem réttarhöld yfir piltinum fara fram. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert