Stúlkur seldar fyrir sígarettupakka

Jasída-konur í flóttamannabúðum í Írak.
Jasída-konur í flóttamannabúðum í Írak. AFP

Unglingsstúlkum sem rænt hefur verið af vígamönnum Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi eru seldar á þrælamörkuðum „fyrir lítið sem sígarettu pakka“. Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna greindi frá þessu í dag.

Zainab Bangura fór til Íraks og Sýrlands í apríl og hefur síðan unnið að áætlun til þess að berjast gegn því skelfilega kynferðislega ofbeldi sem konur verða það fyrir af hendi liðsmanna hryðjuverkasamtakanna.

„Þetta er stríð sem háð á líkömum kvenna,“ sagði Bangura í samtali við AFP fréttastofuna.

Nefndin ræddi við konur og stúlkur sem höfðu sloppið úr haldi Ríkis íslams. Þau hittu jafnframt trúar- og stjórnmálaleiðtoga sem heimsóttu flóttamenn í Tyrklandi, Líbanon og Jórdaníu.

Vígamenn samtakanna halda úti þrælamörkuðum þar sem konur eru seldar. Ekki liggja fyrir tölur um hversu margar konur er að ræða.

„Þeir ræna konum þegar þeir ná yfirráðasvæðum þannig þeir hafa, ég vil ekki segja ferskar birgðir, en þeir eru með nýjar stúlkur,“ sagði Bangura.

Sumar stúlkur eru seldar fyrir smámuni eins og sígarettupakka á meðan aðrar eru seldar fyrir mörg hundruð þúsund dali.

Að sögn Bangura eru margar stúlknanna jasídar, en það er minnihlutahópur sem hefur lengi verið skotmark Ríkis íslams. „Sumar voru teknar, læstar inni í herbergi, rúmlega hundrað þeirra í litlu húsi. Afklæddar og þvegnar,“ lýsti Bangura. Í kjölfarið voru þær látnar standa fyrir framan hóp manna sem ákváðu hvers þær voru virði.

Bangura sagði sögu fimmtán ára stúlku sem var seld til leiðtoga innan samtakanna á fimmtugsaldri. Á hann að hafa sýnt henni byssu og prik og spurt hana hvort hún vildi. „Hún sagði „byssuna“ og hann svaraði: „Ég keypti þig ekki svo þú gætir drepið þig,“ áður en hann nauðgaði henni,“ lýsti Bangura.

Það að ræna konum og stúlkum er orðinn stór hluti af starfsemi Ríkis íslams en þær eru notaðar til þess að tæla erlenda menn til samtakanna. Síðustu átján mánuði hafa þúsundir ferðast til Sýrlands og Íraks til þess að ganga til liðs við samtökin. 

„Það er með þessu sem þeir tæla unga menn. „Við erum með konur sem bíða ykkar, hreinar meyjar sem þið getið gifst“,“ lýsti Bangura. „Erlendu bardagamennirnir er uppistaða átakanna.“

Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna hafa tæplega 25.000 erlendir bardagamenn frá yfir 100 löndum tekið þátt í starfsemi Ríkis íslams. Flestir þeirra eru í Sýrlandi og Írak.

Bangura hrósaði þjóðflokkum eins og jasídum sem hafa tekið vel á móti þeim konum sem hafa sloppið úr haldi hryðjuverkamannanna. Konunum hefur verið boðið aðstoð til þess að púsla lífi sínu aftur saman eftir hörmulega lífsreynslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert