Minnkandi líkur á samkomulagi

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands. AFP

„Grikkir hafa frekar tekið skref afturábak. Bilið á milli deiluaðila er frekar að stækka en minnka,“ sagði Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, í dag um viðræður grískra ráðamanna við alþjóðlega lánadrottna Grikklands um skuldavanda landsins. Ekki tókst að landa samkomulagi í dag um skilyrði þess að Grikkir fái frekari lánafyrirgreiðslur.

Fram kemur í frétt AFP að svo mikil gjá sé á milli Grikkja og lánadrottna þeirra að til standi að þeir skili sitthvorum tillögunum til fjármálaráðherra evruríkjanna síðar í dag. Ekki hefur með öðrum orðum tekist að ná saman um tillögur. Fyrir vikið hafa áhyggjur farið vaxandi af því að Grikkland eigi eftir að lenda í greiðsluþroti og þurfi í framhaldinu jafnvel að yfirgefa evrusvæðið. Haft er eftir Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að hann sé dauðþreyttur eftir viðræðurnar við gríska ráðamenn.

Markmið viðræðnanna var að ljúka samkomulagi í dag svo leggja mætti það fyrir fund fjármálaráðherra evruríkjanna í kvöld. Málið er í mikilli tímapressu þar sem Grikkir þurfa að standa undir háum afborgunum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í lok þessa mánaðar. Enginn árangur virðist hins vegar hafa náðst í viðræðufundum sem staðið hafa alla vikuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert