Blóðbað á baðströnd

Öryggissveitir hafa girt svæðið af. Myndin er úr safni.
Öryggissveitir hafa girt svæðið af. Myndin er úr safni. AFP

Hryðjuverkaárás sem var gerð á baðströnd í Túnis í dag er ein mannskæðasta árás sem gerð hefur verið í landinu á síðastliðnum árum. Að minnsta kosti 27 féllu í árásinni, þar á meðal erlendir ferðamenn. Mikill fjöldi baðstrandargesta var á svæðinu þegar byssumaður hóf skothríð.

Sjónarvottar segja að fólk hafi orðið mjög óttaslegið og mikil ringulreið hafi skapast á ströndinni í Sousse, sem er um 140 km suður af höfuðborginni Túnis. Svæðið er vinsæll ferðamannastaður og þar eru fjölmörg hótel.

Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að vopnaður maður hafi komist inn hótelið bakdyramegin og síðan hafi hann hafið skothríð. Hann segir að erlendir ferðamenn séu á meðal hinna látnu, en hann hefur ekki upplýst um þjóðerni þeirra. Margir hafa auk þess særst og verið fluttir á sjúkrahús. 

Frá Sousse sem er vinsæll strandstaður meðal erlendra ferðamanna.
Frá Sousse sem er vinsæll strandstaður meðal erlendra ferðamanna. AFP

„Þetta var hryðjuverkaárás,“ sagði talsmaðurinn og bætti við að skotmarkið hafi verið Marhaba hótelið í Port El Kantaoui-héraði landsins. 

Hann bætti við að árásarmaðurinn hafi verið felldur. Hann útilokaði hins vegar ekki að fleiri hafi tekið þátt í árásinni. 

Í mars sl. lést 21 ferðamaður og einn lögreglumaður í árás sem var gerð Bardo-safnið í Túnis. 

Breskur ferðmaður segir í samtali við AFP-fréttaveituna að árásin hafi átt sér stað um klukkan 12 að staðartíma (klukkan 11 að íslenskum tíma) og en þá voru mjög margir ferðamenn á ströndinni. 

Menn töldu í fyrstu að einhver væri að sprengja litla flugelda en fljótlega greip örvænting um sig og fólk hóf að flýja. 

Öryggissveitir hafa girt allt svæðið af og er málið nú í rannsókn . 

Að minnsta kosti 27 látnir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert