Greiða ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, staðfesti í morgun að greiðsla færi ekki fram í dag til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í samræmi við lánaskuldbindingar landsins. Greiðslan nemur 1,6 milljörðum evra.

Fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar að blaðamenn hafi spurt Varoufakis að því þegar hann var á leið inn í gríska fjármálaráðuneytið hvort greiðslan færi fram. Svarið var: „Nei.“ Gjalddagi greiðslunnar er í dag. Verði ekki staðið við hana er óttast að greiðsluþrot Grikklands verið raunin á næstunni.

Stífar viðræður hafa staðið yfir á milli grískra stjórnvalda og alþjóðlegra lánadrottna Grikklands, Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, undanfarna mánuði án mikils árangurs. Viðræðurnar snúast um áframhaldandi lánveitingar til Grikkja og skilyrði fyrir þeim. Lánadrottnarnir hafa farið fram á auknar aðhaldsaðgerðir í landinu en grísk stjórnvöld, undir forystu vinstriflokksins, Syriza hafa hafnað því.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í Grikklandi á sunnudaginn um skilyrði lánadrottna landsins og hefur gríski forsætisráðherra Alexis Tsipras hvatt landa sína til þess að hafna þeim. Hann hefur að sama skapi gefið í skyn að verði skilyrðin samþykkt kunni hann að segja af sér.

Forystumenn innan Evrópusambandsins hafa ítrekað að enn sé mögulegt að ná samkomulagi um skuldamál Grikklands þó tíminn sé naumur. Fréttir herma að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, hafi í dag lagt fram nýjar tillögur að samkomulagi fyrir Tsipras. Viðbrögð gríska forsætisráðherrans liggja hins vegar ekki fyrir.

Grískt greiðsluþrot gæti orðið til þess að Grikkland yrði að segja skilið við evrusvæðið og taka upp eigin gjaldmiðil að nýju. Landið hefur þegar sett innleitt fjármagnshöft en það var gert um helgina. Þá er yfirvofandi greiðsluþrot Grikklands þegar farið að hafa neikvæð áhrif í öðrum illa stöddum evruríkjum eins og Ítalíu og Spáni. Meðal annars á lánakjör á mörkuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert