Þátttaka AGS nauðsynleg

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP

Þýsk stjórnvöld telja nauðsynlegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taki þátt í þriða lánapakkanum til handa Grikkjum.

Þetta sagði talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins á blaðamannafundi í morgun. Fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu seinasta föstudag að veita Grikkjum 86 milljarða evra neyðarlán, en óvissa hefur hins vegar ríkt um þátttöku Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í frekara björgunarstarfi.

„Þátttaka AGS er enn nauðsynleg,“ sagði talsmaðurinn.

Hann sagði að Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, myndi aðeins samþykkja, fyrir hönd sjóðsins, að taka þátt í þriðja lánapakkanum ef Grikkir uppfylla öll skilyrði sem lánardrottnarnir hafa sett þeim fyrir október.

Hann sagðist jafnframt ekki geta sagt til um hvenær lánardrottnarnir myndu hefja viðræður við grísk stjórnvöld um skuldaniðurfellingar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt áherslu á að evruríkin verði að létta skuldabyrði gríska ríkisins.

Sjóður­inn samþykkti að leggja til 20.7 millj­arða evra í fyrsta lánapakk­an­um til Grikk­lands árið 2010 og síðan 11,6 millj­arða evra tveim­ur árum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert