Frakkar heiðra lestarhetjurnar

Francois Hollande sæmir Spencer Stone orðu heiðursfylkingarinnar í morgun og …
Francois Hollande sæmir Spencer Stone orðu heiðursfylkingarinnar í morgun og Alek Skarlatos klappar honum lof í lófa. AFP

Francois Hollande, forseti Frakklands, sæmdi Bandaríkjamennina þrjá og Breta á sjötugsaldri sem yfirbuguðu vopnaðan mann í lest á föstudag orðu heiðursfylkingarinnar, æðstu orðu Frakklands, í dag. Sagði hann heimsbyggðina dást að hugrekki mannanna og stillingu.

Yfirheyrslur halda áfram yfir árásarmanninum, hinum 25 ára gamla Ayoub El Khazzani, sem var vopnaður Kalashnikov-riffli, Luger-skammbyssu og skotfærum og dúkahníf. Vitni segja að hann hafi hafið skothríð í hraðlestinni á föstudag og sært mann áður en Bandaríkjamennirnir þrír og Bretinn yfirbuguðu hann.

„Hryðjuverkamaður ákvað að fremja árás. Hann var með nógu mikið af vopnum og skotfærum til að valda raunverulegu blóðbaði og það hefði hann gert ef þið hefðuð ekki tæklað hann og hætt ykkar eigin lífi til þess,“ sagði Hollande þegar hann sæmdi bandarísku hermennina Alek Skarlatos og Spencer Stone, vin þeirra námsmanninn Anthony Sadler og hinn 62 ára gamla breska viðskiptaráðgjafa Chris Norman orðunni í frönsku forsetahöllinni í morgun.

Rúmlega fimmtugur maður, Mark Moogalian, sem er bæði með bandarískt og franskt ríkisfang, sem særðist í átökum við árasármanninn verður einnig sæmdur orðunni þegar hann hefur jafnað sig af sárum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert