Hefja árslanga einangrunarvist

Sex manna teymi á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar hefur hafið árslanga einangrunarvist í hvelfingu á Hawaii, en vistin miðar að því að líkja eftir búsetu á Mars. Um er að ræða lengsta verkefni sinnar tegundar í sögu NASA.

Sérfræðingar gera ráð fyrir að leiðangur manna til Mars gæti tekið á bilinu eitt til þrjú ár. Teymið mun lifa í nánu sambýli undir hvelfingunni, án fersks lofts, fersks matar og einkalífs. Hvelfingin er aðeins 11 metrar að þvermáli og 6 metrar að hæð.

Ef fólkið ætlar sér út fyrir hvelfinguna þarf það að klæðast geimbúning.

Teymið lokaði sig inni kl. 1 í nótt en í því eru franskur geimlíffræðingur, þýskur eðlisfræðingur og fjórir Bandaríkjamenn; flugmaður, arkitekt, blaðamaður og jarðvegsfræðingur.

Hver og einn hefur til umráða bedda og skrifborð en meðal þess sem verður á boðstólnum á matmálstímum verður niðursoðinn túnfiskur og ostur í duftformi.

Leiðangrar í alþjóðlegu geimstöðina vara í sex mánuði og NASA hefur nýlega lokið tilraunum sem fólu í sér fjögurra og átta mánaða einangrunarvist. Á meðan aðrir einbeita sér að tæknilegum hliðum geimferðar til Mars, snýst tilraunin á Hawaii um mannlega hlið ferðalagsins og þau vandamál sem koma upp við nána samvist.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka