Guðfræðingurinn Robert Craig Sproul Jr. segist aldrei hafa notað framhjáhaldssíðuna Ashley Madison til að halda framhjá, hann hafi aðeins skráð sig þangað inn í fyrra og fljótlega látið sig hverfa. Þá hafi hann aldrei haldið framhjá eiginkonu sinni, jafnvel ekki eftir andlát hennar.
Talið er hugsanlegt að nokkur hundruð prestar, djákar og aðrir starfsmenn kirkna víða um heim muni fylgja í fótspor hins þekkta guðfræðings sem hefur látið af störfum eftir að í ljós kom að netfang hans var að finna í gögnum sem tölvuþrjótar stálu frá framhjáhaldssíðunni Ashley Madison.
Þetta kemur fram í frétt bandaríkja fréttavefsins Usa Today en þar er fjallað um vangaveltur Ed Stetzer sem bloggar á síðunni Christianity Today. Stetzer hvetur leiðtogana til að ná sáttum við guð, fjölskyldur þeirra og kirkjur líkt og Sproul Jr. hafi gert.
Guðfræðingurinn er átta barna faðir og starfaði sem rektor í biblíuskólanum Reformation Bible College. Hann er nú atvinnulaus og birti ritgerð á bloggi sínu í gær sem kallar Dómur og náð.
Þar segist hann hafa skráð sig á framhjáhaldssíðuna í ágúst árið 2014. „Markmið mitt var ekki að safna gögnum fyrir gagnrýnar athugasemdir, heldur að glæða elda ímyndunaraafls míns lífi,“ skrifar guðfræðingurinn sem segist í kjölfarið hafa fundið fyrir skömm og ótta.
„Ég var nógu lengi þarna til að skilja eftir gömul netföng. Og ég lét mig hverfa innan nokkurra mínútna og sneri aldrei til baka,“ skrifaði hann einnig og segist aldrei hafa verið eiginkonu sinni ótrúr, jafnvel ekki eftir andlát hennar.