Framhjáhaldssíða greiðir sekt

Forsíða Ashley Madison.
Forsíða Ashley Madison. AFP

Eigendur framhjáhaldssíðunnar Ashley Madison hafa samþykkt að greiða 1,6 milljónir dollara í sekt vegna lekans sem opinberaði gögn um 36 milljóna notenda hennar í fyrra. Sektin rennur í sjóði bandarísku alríkisstjórnarinnar og nokkurra ríkja sem stefndu eigendum vefsíðunnar.

Móðurfyrirtæki síðunnar, Ruby, náði samkomulagi við bandaríska samkeppniseftirlitið (FTC) og eftirlitsstofnanir einstakra ríkja um að greiða sektina fyrir að hafa ekki varið persónuupplýsingar viðskiptavina sinna. Sektin gæti hækkað upp í 8,75 milljónir dollara hlýti fyrirtækið ekki nýjum lögum um gagnaöryggi og hætti ekki að blekkja notendur sína.

Gagnalekinn er sá stærsti sem samkeppniseftirlitið hefur rannsakað. Hópur tölvuþrjóta braust inn á síðuna í fyrra og birtu upplýsingar um milljónir notenda frá 46 löndum. Birting upplýsinganna er meðal annars sögð hafa leitt til fjárkúgana og jafnvel sjálfsvíga.

Vefsíðan opnaði aftur fyrr á þessu ári og segist vera stefnumótasíða með „opinn huga“. Slagorð vefsíðunnar var áður „Lífið er stutt, haltu fram hjá“. Þá sagðist fyrirtækið vera hætt að nota svonefnda botta, sjálfvirk forrit sem þóttust vera konur til þess að laða karlmenn að síðunni, eins sem kvartað hafði verið undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert