Vottaði Rússum samúð sína

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, vottaði Rússum samúð sína í dag vegna dauða rússnesks flugmanns sem lét lífið þegar að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu í Sýrlandi í síðustu viku. Gerði hann það eftir að hafa fundað með utanríkisráðherra Rússa, Sergei Larov, í Belgrad í dag. Það var fyrsti fundur á milli fulltrúa ríkjanna síðan atvikið átti sér stað 24. nóvember.

Báðir flugmenn þotunnar komust lifandi úr þotunni en annar þeirra var skotinn til bana þegar hann sveif niður til jarðar í fallhlíf. Ekki liggur fyrir hverjir skutu flugmanninn en Rússar hafa krafið Tyrki um afsökunarbeiðni á því að hafa skotið þotuna niður. Tyrkir héldu því fram að þotan hafi verið yfir tyrkneskri landhelgi þegar hún var skotin niður. Annar rússneskur hermaður lést í björgunarleiðangri til að sækja flugmennina.

Cavusoglu sagði í dag að fundurinn hafi gengið vel en gaf ekki upp frekar upplýsingar. Sagði hann mikilvægt að halda samtalinu áfram.

„Á báðum hliðum er vilji til þess að spennan magnist ekki enn frekar,“ sagði hann og bætti við að hann væri viss um að raunsæi myndi sigra tilfinningar. Hann lagði þó áherslu á að málinu væri ekki lokið með einum fundi.

Síðustu dagar hafa Rússar sakað Tyrki um að flytja inn olíu frá liðsmönnum Ríkis íslams í Sýrlandi. Tyrkir neita þeim ásökunum.

Í rússneskum sjónvarpi sagði Lavrov að ekkert nýtt hafi komið fram á fundinum. „Við heyrðum ekkert nýtt. Tyrkneski ráðherrann staðfesti það sem við höfum þegar heyrt. Við lögðum áherslu á okkar skoðanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert