Pútín: Ógn verði eytt strax

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín
Forseti Rússlands, Vladimír Pútín AFP

Forseti Rússlands, Vladimír Pútin, fyrirskipaði herforingjum sínum að svara af fullum þunga öllum ógnum sem rússneski herinn verður fyrir í Sýrlandi. „Ég fyrirskipa ykkur að bregðast eins harkalega við og mögulegt er,“ sagði forsetinn er hann ávarpaði varnarmálafund í dag en ávarpinu var sjónvarpað í Rússlandi.

Tvær vikur eru síðan Tyrkir skutu niður rússneska herþotu á landamærum Sýrlands og Tyrklands.

„Öll skotmörk sem ógna rússneskum hópum eða innviðum lands okkar á að eyða strax,“ bætti Pútín við.

 Pútín útskýrir mál sitt ekki frekar en líkt og alþjóð veit þá deila Rússar og Tyrkir harkalega eftir að herþotan var skotin niður. Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í september og segja að það sé að beiðni forseta Sýrlands, Bashar al-Assad.

Stjórnvöld í Kreml hafa neitað ásökunum af hálfu Bandaríkjanna og annarra ríkja sem sameiginlega eru í lofthernaði gegn Ríki íslams, um að her Rússa beini árásum sínum meðal annars að stjórnarandstæðinum í Sýrlandi ekki bara Ríki íslams líkt og Rússar halda fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert