Obama: „Okkar besti möguleiki“

Barack Obama í Hvíta húsinu í gær. Hann fagnar innilega …
Barack Obama í Hvíta húsinu í gær. Hann fagnar innilega samkomulaginu í París. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti fagnar „sterku“ og sögulegu“ samkomulagi sem náðist í gær á loftslagsráðstefnunni í París. Hann segir það marka tímamót í veraldarsögunni. Hann segir samkomulagið vera „besta möguleikann sem við höfum til að bjarga einu plánetunni sem við höfum.“

„Parísarsamkomulagið setur þann ramma sem heimsbyggðin þarf til að leysa loftslagsvandann,“ sagði Obama í Hvíta húsinu í gærkvöldi. „Það býr til arkitektúrinn sem við getum farið eftir til að takast á við vandann á skilvirkan hátt.“

Hann segir að leiðtogar heimsins hafi komið sér saman um „sterkt“ samkomulag sem  miði að því að minnka kolefni í andrúmsloftinu til framtíðar. 

„Í sameiningu sýndum við hvað er hægt að gera þegar þjóðir heimsins standa saman sem ein heild,“ sagði hann en bætti við að samkomulagið væri aðeins fyrsta skrefið í þá átt að hafa áhrif á loftslagsbreytingar sem í framtíðinni gætu haft gríðarlega neikvæð áhrif á jörðina. 

„Þetta samkomulag leysir ekki vandann, en athugið það setur okkur rammann sem þarf til að vinna gegn loftslagsbreytingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert