Mældist á 174 km hraða í gegnum vinnusvæði

Allt of algengt að menn aki of hratt í gegnum …
Allt of algengt að menn aki of hratt í gegnum framkvæmdasvæð svo og hjáleiðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dæmi eru um að bílar hafi mælst aka á 174 kílómetra hraða í gegnum vinnusvæði þar sem hámarkshraði er merktur 50 km/klst. 

Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi Ágústs Jakobs Ólafssonar, yfirverkstjóra ÍAV, á morgunfundi Vegagerðarinnar sem fór fram í gær. Góð mæting var á fundinn þar sem fjöldi áhugaverðra erinda voru flutt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni

„Manstu ekki eftir mér“

Sævar Helgi Lárusson, öryggisstjóri Vegagerðarinnar, var einn þeirra sem tók til máls og flutti hann erindið „Manstu ekki eftir mér“ þar sem hann fór yfir helstu reglur sem gilda um akstur í gegnum vinnusvæði.

Þá kynnti hann vitundarátakið; Aktu varlega! – mamma og pabbi vinna hér, sem verður í gangi í sumar, þar sem Vegagerðin og verktakar munu setja upp sérstök skilti við framkvæmdasvæði til að minna fólk á að aka varlega enda séu mæður, feður, ömmur, afar, frændur og frænkur að störfum.

Atvinnubílstjórar sýni minnstu tillitsemina 

Þröstur Reynisson, verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Borgarnesi, tók einnig til máls og ræddi sína upplifun af því að starfa úti á vegi, sér í lagi í holuviðgerðum. Þröstur var ómyrkur í máli, sagði hraðakstur allt of algengan og þótti lítil virðing borin fyrir þeim sem starfa á vegum úti.

Sagði hann sína upplifun vera þá að atvinnubílstjórar sýndu minnstu tillitsemina, en bætti við að stjórnendur þjónustumiðstöðvarinnar væru duglegir að hringja í fyrirtækin sem tækju oft vel á málunum í kjölfarið. Undir þetta tók Ágúst Jakob. 

Algengt að menn aki allt of hratt í gegnum vinnusvæði 

Í erindi sínu sagði Ágúst jafnframt frá reynslu fyrirtækisins við framkvæmdir á umferðarþungum vegum á borð við Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss og nú Reykjanesbraut.

Settar hafa verið upp tvær stuttar hjáleiðir við framkvæmdasvæðið auk merkinga og skila sem mæla hraða ökumanna. Hraðinn á öllu framkvæmdasvæðinu er 70 km/klst en á hjáleiðunum 50 km/klst og segir Ágúst allt of algengt að menn aki of hratt í gegnum framkvæmdasvæðið, svo og hjáleiðirnar.

„Sá sem ók hraðast mældist á 174 km hraða þegar hann var að koma út úr annarri hjáleiðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert