Fylgjast með 74 hryðjuverkamönnum

Fólk kom saman til að minnast hinna látnu.
Fólk kom saman til að minnast hinna látnu. AFP

Einn hefur verið handtekinn af lögreglu í tengslum við rannsókn hennar á hryðjuverkaárás sem framin var í Istanbúl í Tyrklandi í gær.

Alls létust 10 Þjóðverjar þegar sjálfsvígssprengjumaður úr röðum Ríkis íslams sprengdi sig í loft upp í Sultanahmet-hverfi í miðborg Istanbúl, en um er að ræða vinsælan viðkomustað erlendra ferðamanna. Auk hinna látnu voru 15 fluttir særðir á sjúkrahús. Sumir hverjir eru alvarlega slasaðir.

Ráðamenn í Ankara í Tyrklandi segja að ódæðismaðurinn sé fæddur árið 1988 og mun hann hafa komið til Tyrklands frá Sýrlandi. Var hann virkur liðsmaður Ríkis íslams þar í landi.

Öryggissveitir í Tyrklandi hafa nú haft uppi á alls 74 einstaklingum þar í landi sem grunaðir eru um að tengjast vígasamtökum Ríkis íslams. Stjórnvöld í Ankara hafa hins vegar ekki viljað gefa frekari upplýsingar um þessa einstaklinga né heldur hvort þeir tengjast árásinni í Sultanahmet-hverfi.

Efkan Ala innanríkisráðherra sagði við þarlenda fjölmiðla í dag að einn hafi verið handtekinn í tengslum við sjálfsvígssprengjuárásina. Hvernig hann tengist árásinni hefur ekki verið gefið upp.

„Rannsókn málsins er í fullum gangi,“ hefur fréttaveita AFP eftir ráðherranum.

Hinir særðu eru flestir með ríkisfang í Þýskalandi og eru sumir þeirra nú lífshættulega slasaðir á sjúkrahúsi. Í hópi slasaðra eru einnig norskir ríkisborgarar og minnst einn Tyrki, að því er AFP greinir frá.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ræddi við þarlenda fjölmiðla í gær í kjölfar árásarinnar. Sagði hún meðal annars mikilvægt að bregðast við hryðjuverkum af hörku.

„Alþjóðleg hryðjuverk hafa enn á ný sýnt sitt miskunnarlausa og ómanneskjulega andlit. Og auk sorgarinnar, sem við öll finnum fyrir nú, sýna þau hve mikilvægt það er að taka á hryðjuverkum af festu,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert