Tsai vinnur stórsigur í Taívan

Tsai Ing-wen hefur varað við því að afskipti af hálfu …
Tsai Ing-wen hefur varað við því að afskipti af hálfu Kína muni setja samskipti ríkjanna í uppnám. AFP

Tsai Ing-wen sigraði með miklum yfirburðum í forsetakosningunum sem fram fóru í Taívan í dag. Hún verður fyrsta konan til að gegna embættinu en sigur Tsai þykir benda til þess að kjósendum hugnist ekki nánari tengsl við Kína, sem fráfarandi forseti hefur ræktað.

Eric Chu, forsetaefni stjórnarflokksins KMT, játaði sig sigraðan fyrir framan tárfellandi fjölmenni í höfuðstöðvum flokksins í Taipei.

Talning atkvæða stendur enn yfir en útgönguspár benda til þess að Tsai, frambjóðandi Lýðræðislega framfaraflokksins (DPP), hafi hlotið um 60% atkvæða og Chu um 30%. Ef úrslitin verða á þann veg er um að ræða stærsta sigur í forsetakosningum í landinu.

Frétt mbl.is: Verður Tsai fyrsta konan til að gegna embætti forseta Taívan?

Eldra metið átti fráfarandi forseti, Ma Ying-jeou, en í kosningunum 2008 hlaut hann 58,45% atkvæða.

„Ég biðst fyrirgefningar. Við höfum tapað. KMT hefur mátt þola ósigur í kosningunum. Við höfum ekki lagt nógu mikið á okkur og brugðist væntingum kjósenda,“ sagði Chu. Hann sagði einnig að flokkurinn hefði tapað þingmeirihluta sínum.

„Þetta er fordæmalaus og dramatísk breyting fyrir KMT,“ sagði hann.

Fráfarandi forseti hefur skapað sé óvinsældir heima fyrir vegna vinarþels síns í garð stjórnvalda í Kína. Þá eru kjósendur óánægðir með að viðskiptasamningar við meginlandið hafa ekki skilað sér í bættum kjörum venjulegra íbúa.

Tsai hefur ítrekað að hún vilji óbreytt ástand í samskiptum við Kína en DPP er almennt fylgjandi sjálfstæði. Eftir kosningasigurinn í dag sagði Tsai að hvers kyns tilraunir af hálfu Kínverja til afskipta myndu skaða samband ríkjanna.

„Það verður að virða lýðræðiskerfi okkar, þjóðarímynd og alþjóðlegt rými,“ sagði hún.

Eric Chu játaði sig sigraðan og sagði að flokkurinn hefði …
Eric Chu játaði sig sigraðan og sagði að flokkurinn hefði brugðist kjósendum. AFP
Margir stuðningsmanna Eric Chu og KMT felldu tár þegar úrslitin …
Margir stuðningsmanna Eric Chu og KMT felldu tár þegar úrslitin lágu ljós fyrir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert