Verður Tsai fyrsta konan til að gegna embætti forseta í Taívan?

Forsetaefni DPP, Tsai Ing-wen, á kosningafundi í gær.
Forsetaefni DPP, Tsai Ing-wen, á kosningafundi í gær. AFP

Íbúar Taívan ganga í dag til sögulegra forsetakosninga en miklar líkur eru á því að Tsai Ing-wen fari með sigur af hólmi og verði fyrsta konan til að gegna embættinu. Tsai, sem er virtur fræðamaður, er leiðtogi DPP og mun harðari í afstöðu sinni gagnvart Kína en hinn óvinsæli stjórnarflokkur KMT.

Kannanir benda til þess að í kosningunum muni kjósendur refsa stjórnvöldum fyrir vinalegheitin í garð stjórnvalda í Pekíng en þeim þykja viðskiptasamningar sem gerðir hafa verið við Kína ekki hafa skilað hinum venjulega Taívana því sem lofað var.

„Taívan þarf að breytast, bæði efnahagslega og stjórnmálalega,“ sagði einn 65 ára kjósandi í samtali við AFP. „Stjórnvöld eru of lin gagnvart Kína,“ bætti hann við.

Tsai hefur verið varfærin gagnvart Kína og sagt að hún vilji aðeins halda „status quo“. DPP er hins vegar almennt séð fylgjandi sjálfstæði og andstæðingar segja að forsetaefnið muni valda spennu í samskiptum Taívan og Kína.

Núverandi forseti hefur tekið skref til að styrkja tengslin og fundaði m.a. með Xi Jinping, forseta Kína, í nóvember sl. en sumum þykir þíðan í samskiptum ríkjanna grafa undan fullveldi Taívan með því að gera það í auknum mæli efnahagslega háð Kína.

Stjórnvöld í Kína hafa varað við því að þau muni ekki eiga samskipti við leiðtoga sem viðurkennir ekki „eitt Kína“-sjónarmið þarlendra stjórnvalda. Skýrendur segja þó ólíklegt að þau muni bregðast við með einhverjum afgerandi hætti ef Tsai fer með sigur í kosningunum í dag, þar sem það myndi ekki auðvelda stöðuna að skapa ólgu í Taívan.

Kannanir benda til að Tsai muni vinna afgerandi sigur.
Kannanir benda til að Tsai muni vinna afgerandi sigur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert