Eldflaugarskot Norður-Kóreu fordæmt

Eldflaugarskotið í nótt.
Eldflaugarskotið í nótt. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í morgun að þeim hefði tekist að skjóta gervitungli á loft með árangursríkum hætti en yfirlýstur tilgangur þess er að styrkja varnir landsins. Eldflaug með gervitunglinu var skotið á loft skömmu eftir miðnætti. Tilkynnt var í ríkisútvarpi Norður-Kóreu að þarlend stjórnvöld væru hvergi hætt þegar kæmi að geimferðaráætlun þeirra.

Tilkynningin hefur fengið neikvæðar viðtökur frá öðrum ríkjum. Þar á meðal frá Kína sem er eini bandamaður Norður-Kóreu. Kínversk stjórnvöld sögðust þannig harma eldflaugaskotið sem talið er fyrst og fremst tengjast tilraunum Norður-Kóreumanna með langdrægar eldflaugar sem gætu borið kjarnorkusprengjur. Þrátt fyrir að Kínverjar séu bandamenn Norður-Kóreu hafa samskiptin þar á milli stirðnað undanfarin ár vegna kjarnorkutilrauna Norður-Kóreumanna.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-Moon, hefur fordæmt eldflaugarskotið og ráðamenn í Rússlandi segja að öryggismálum á svæðinu sé ógnað með því. Þá hefur verið tilkynnt að hafnar verði formlegar viðræður á milli Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna um að komið verði upp bandarísku eldflaugavarnarkerfi í Suður-Kóreu vegna vaxandi ógnar frá Norður-Kóreu. Um er að ræða svonefnt THAAD-eldflaugavarnarkerfi.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa kallað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar bregðist af hörku við eldflaugarskotinu og frönsk stjórnvöld hafa fordæmt það og kallað eftir aðgerðum af hálfu Öryggisráðs SÞ.

Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, fylgist með eldflaugarskotinu í nótt.
Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, fylgist með eldflaugarskotinu í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert