Átta látnir og yfir 100 slasaðir

AFP

Átta eru látnir eftir árekstur tveggja farþegalesta í Bæjaralandi í Þýskalandi í morgun. Yfir fimmtíu eru alvarlega slasaðir, þar af eru á annan tug í lífshættu. Yfir 100 hafa verið fluttir á sjúkrahús. Einhverjir fjölmiðlar greina frá því að níu séu látnir en það hefur ekki fengist staðfest.

AFP

Svo virðist sem lestirnar hafi komið úr gagnstæðri átt á einbreiðum járnbrautarteinum skammt frá bænum Bad Aiblin, um 60 km suðaustur af  München. Samkvæmt upplýsingum frá járnbrautarfyrirtækinu í Bæjaralandi, Meridian, fóru þær báðar út af sporinu og vöfðust utan um hvor aðra. Lestarvagnar liggja eins og hráviði á slysstaðnum. Fleiri hundruð sjúkraliðar, slökkviliðsmenn, lögregluþjónar og annað hjálparstarfsfólk hefur verið að störfum á slysstaðnum frá því slysið varð skömmu fyrir klukkan sjö, (sex að íslenskum tíma).

AFP

Að sögn lögreglu er enn verið að reyna að losa farþega út úr lestarvögnunum. Þetta er alvarlegasta slys sem við höfum upplifað í mörg ár í þessu héraði, segir talsmaður lögreglunnar Stefan Sonntag. 

AFP

Lokað hefur verið fyrir lestarferðir á milli bæjanna Rosenheim og Holzkirchen þar sem slysið varð og ekki er gert ráð fyrir því að umferð verði hleypt þar á fyrr en um miðjan dag. Eins eru flestir þjóðvegir í nágrenni slysstaðarins lokaðir fyrir almenna umferð til þess að auðvelda sjúkraliði aðgengi að slysstaðnum.

Áður hafði verið greint frá því að fjórir hefðu látist en fjögur lík til viðbótar fundust í braki lestanna. 

AFP

Rainer Scharf, lögregluvarðstjóri segir að enn sé ekki vitað hvað olli slysinu en allt bendi til þess að hvorug lestin hafi verið á mikilli ferð. Allt kapp sé lagt á að bjarga fólki út úr flakinu en auk þýskra sjúkraliða þá eru starfsbræður þeirra frá Austurríki komnir á staðinn til þess að veita aðstoð en slysið varð skammt frá landamærunum.

Slysið er talið fyrsta banvæna lestarslysið í Þýskalandi frá því í apríl 2012 en þáléstust þrír og 13 slösuðust þegar tvær héraðslestar rákust á við bæinnOffenbach.

Mannskæðasta lestarslysið frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar er hins vegar þegar hraðlest fór útaf teinunum við bæinn Eschede árið 1998. Þá lést 101 og 88 slösuðust.

Nokkrir látnir og 100 slasaðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert