Húsið hans Prince verður ekki selt

Kevin Winter

Bústjóri dánarbús bandaríska tónlistarmannsins Prince segir ekkert hæft í fréttum um að selja eigi Paisley Park, heimili og upptökuver tónlistarmannsins.

Í dómsskjölum sem lögð voru fram á föstudag er eignin meðal þess sem hægt er að selja úr dánarbúinu. Í yfirlýsingu Bremers Trusts, skiptastjóra dánarbúsins, kemur fram að ekki standi til að selja Paisley Park, að því er segir í frétt BBC.

Prince fannst látinn í lyftu í Paisley Park í apríl eftir að hafa fyrir slysni tekið of stóran skammt af verkjalyfjum.

Þúsundir aðdáenda komu næstu daga á eftir að eigninni, sem einnig gengur undir heitinu Purple Rain-húsið, til þess að minnast tónlistarmannsins. Sú hugmynd hefur komið fram að breyta húsinu í safn líkt og Graceland þar sem Elvis Presley bjó fyrir andlát sitt. Vinur Prince segir að tónlistarmaðurinn hafi verið byrjaður að undirbúa breytingu hússins í safn. Þar hafi hann verið búinn að safna saman alls konar minjagripum, meðal annars úr tónleikaferðalögum o.fl.

Bremer Trust óskaði eftir því fyrir rétti á föstudag að fá heimild til þess að selja rúmlega 20 eignir Prince en virði þeirra er um 28 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 3,4 milljarða króna. Ekki er vitað hvers vegna Paisley Park var þar tiltekin en tekjur af sölunni munu án efa koma sér vel þegar greiða þarf skatt af dánarbúinu í janúar. Talið er að skattarnir muni nema yfir 100 milljónum Bandaríkjadala.

Á sama tíma er unnið að því að fara yfir kröfur í búið og hverjir séu svo sannarlega réttmætir erfingjar tónlistarmannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert