Biðlað til varaforsetans á söngleik

Verðandi varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence (f.m.).
Verðandi varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence (f.m.). AFP

Leikarar söngleiksins vinsæla Hamilton nýttu tækifærið þegar þeir sáu að verðandi varaforseti Bandaríkjanna Mike Pence var á meðal áhorfenda og biðluðu til hans um að ríkisstjórn hans og Donalds Trumps ynni fyrir alla Bandaríkjamenn.

Söngleikurinn Hamilton hefur farið sigurför um Bandaríkin en hann fjallar um Alexander Hamilton, einn stofnenda landsins. Pence var á meðal gesta á Broadway í gærkvöldi en þegar hann var að fara eftir að sýningunni lauk vakti leikarinn Brandon Victor Dixon athygli á að varaforsetinn verðandi væri í salnum. Þakkaði hann Pence fyrir komuna og sagðist vonast eftir að hann myndi hlusta.

„Við, herra minn, við erum fjölbreytt Bandaríki sem höfum áhyggjur og erum kvíðin yfir því að nýja ríkisstjórnin ykkar muni ekki vernda okkur, plánetuna okkar, börnin okkar, foreldra okkar eða verja okkur og hafa í heiðri óafsalanleg réttindi okkar. Við vonum sannarlega að þessi sýning hafi veitt þér innblástur til að hafa í heiðri bandarísk gildi okkar og að vinna fyrir okkur öll,“ sagði leikarinn sem fer með hlutverk Aaron Burr í söngleiknum.

New York Times segir að áhorfendur hafi tekið ákalli leikarans með miklu lófataki og fagnaðarópum. Pence hafi verið á leiðinni út úr salnum þegar Dixon hóf ákallið en hann hafi staldrað við og hlustað á það til enda.

Í frétt blaðsins kemur einnig fram að Pence hafi verið tekið með blöndu lófataks og bauls þegar hann kom fyrst í salinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert