Hetjan sem ók lestinni

Alexander Kaverin stýrði lest sinni inn á næstu brautarstöð eftir …
Alexander Kaverin stýrði lest sinni inn á næstu brautarstöð eftir að sprengjan sprakk. Þá var hægt að koma særðum til aðstoðar fljótt. AFP

Rússneski lestarstjórinn Alexander Kaverin vann hetjudáð er hann stýrði lest sinni að næstu stöð þrátt fyrir að sprenging hefði orðið í einum vagninum og lestin full af reyk. Fjórtán létust í árásinni og yfir 40 eru slasaðir. 

Kaverin er fimmtugur. Hann kom fram í sjónvarpsviðtali skömmu eftir árásina og lýsti viðbrögðum sínum. „Ég fór bara eftir leiðbeiningunum,“ sagði hann. „Við höfum þegar orðið fyrir sprengingum og klárt fólk hefur þróað skynsamlegar leiðbeiningar.“

Kaverin segist hafa brugðist hratt við. „Á þessu augnabliki var ekki neinn tími til að vera hræddur, það var tími til að vinna,“ segir hann. 

Lestarstjórinn segir að samkvæmt fyrirmælum eigi hann að aka lestinni að næstu stöð þegar sprenging verður. Rússneska lögreglan segir að Kaverin hafi brugðist rétt við með því að stöðva ekki lestina milli stöðvanna tveggja. Þessi ákvörðun hans hafi orðið til þess að hægt var að hleypa fólki út með öruggum hætti fljótlega eftir að árásin var gerð og koma særðum til hjálpar.

Umkringdu heimilið

Yfirmaður neðanjarðarlestanna í St Pétursborg segir að Kaverin sé ekkert annað en hetja. „Í neyð verða menn hetjur,“ sagði hann. 

Kaverin er tveggja barna faðir og segist hafa hringt í fjölskyldu sína eins fljótt og hann gat til að láta vita að hann væri heill á húfi. Hann komst ekki heim til sín í gær fyrir æstum hópi fréttamanna sem umkringdu heimili hans. „Í gær var erfiður dagur,“ segir hann. 

Annar starfsmaður neðanjarðarlestanna lét vita af yfirgefnum bakpoka í einni lestinni um hálftíma áður en sprengingin varð í lest Kaverins. Sú lest var rýmd samstundis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert