„Ég vildi að þetta myndi hætta“

Andrea Constand mætir í réttarsal í dag.
Andrea Constand mætir í réttarsal í dag. AFP

Andrea Constand, sem sakaði Bill Cosby um að byrla sér lyf og mis­nota kyn­ferðis­lega árið 2004, bar vitni fyrir dómi í réttarhöldum í dag. Réttarhöldin hófust í gær en verði Cosby dæmdur sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að 10 ára fang­elsi.

„Ég vildi að þetta myndi hætta,“ sagði hin 44 ára gamla Andrea Constand við réttarhöldin í dag þar sem hún rifjaði upp kvöldið á heimili Cosby 13 árum fyrr.

Constand leit á Cos­by sem vin sinn og læri­föður áður en hann mis­notaði hana. Hún segir að hann hafi gefið henni töflur og vín áður en hann misnotaði hana kynferðislega á sófanum eftir að hún hafði spurt hann ráða er vörðuðu starfsframa hennar.

„Ég sagðist treysta þér,“ sagði Constand að hún hefði sagt við Cosby á sínum tíma. Um hálftíma eftir að hún tók töflurnar sagði Constand að hún ætti erfitt með að hreyfa sig og sæi tvöfalt. Eftir að hafa misst meðvitund í stutta stund vaknaði hún við að Cosby var að koma við hana, kom fram í réttarhöldunum.

Bill Cosby.
Bill Cosby. AFP

„Ég reyndi að hreyfa hendur og fætur en var alveg frosin,“ sagði Constand skjálfrödduð.

Vitnisburður hennar er lykilatriði í málinu en sérfræðingar vestanhafs segja að hann muni hafa mikið að segja um það hvort Cosby verði dæmdur sekur. „Ég skammaðist mín og var mjög ringluð,“ sagði Constand.

Cos­by, sem er 79 ára, hef­ur neitað þess­um ásök­un­um. Að sögn lög­fræðings hans samþykkti Const­ant að stunda með hon­um kyn­líf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert