Harvey kominn til Louisiana

AFP

Fellibylurinn Harvey kom aftur upp á land í dag í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum eftir að hafa áður valdið bæði manntjóni og miklu eignatjóni í nágrannaríkinu Texas. Fram kemur í frétt AFP að Harvey veki upp erfiðar minningar hjá íbúum Louisiana-ríkis um þá gríðarlegu eyðileggingu sem fellibylurinn Katrina hafði í för með sér fyrir tólf árum.

Fram kemur í fréttinni að björgunarsveitarfólk í Texas vinni hörðum höndum við að reyna að finna fólk á lífi, þá einkum í Houston, fjórðu stærstu borg Bandaríkjanna, en líkurnar á því minnki með hverri klukkustundinni sem líður vegna mikilla flóða í kjölfar fellibylsins. Miklar rigningar ganga enn yfir suðausturhluta Texas sem og suðvesturhluta Louisiana.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að líklega hafi 30 manns hið minnsta látið lífið þegar tekin séu saman staðfest dauðsföll og þeir sem taldir eru af. Óttast er að fleiri lík finnist samhliða því sem vatnsyfirborðið lækkar. Hundruða manna er saknað en embættismenn telja að í mörgum tilfellum kunni fólk einfaldlega ekki að vera í símasambandi.

Rúmlega 30 þúsund manns hafa leitað skjóls meðal annars í sérútbúnum neyðarskýlum og kirkjum. Langur vegur er frá því að það sjái fyrir endann á hamförunum að mati bandarískra stjórnvalda. Taka mun langan tíma að koma hlutunum í samt lag í Texas. 

Ljósmynd/Guillermo Keller
Ljósmynd/Guillermo Keller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert