„Bjóst aldrei við árás heima“

Dóttir Öglu á leið heim úr skólanum í gær.
Dóttir Öglu á leið heim úr skólanum í gær. Ljósmynd/Agla Gauja

„Ég bý í blokkinni á þessu horni,“ segir Agla Gauja Björnsdóttir í samtali við mbl.is. Hún býr ásamt níu ára gamalli dóttur sinni í West Side á Lower Man­hatt­an þar sem maður drap átta manns og særði 11 alvarlega í gær.

Árás­armaður­inn, Sa­yfullo Saipov, 29 ára, ók yfir hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur á hjólastíg við hliðina á skólanum sem dóttir Öglu er í. 

„Þetta byrjaði akkúrat á þeim tíma sem krakkarnir eru sóttir, þeir voru komnir út á skólalóð og foreldrar biðu fyrir utan skólalóðina,“ segir Agla. Fyrst héldu einhverjir að um „eðlilegan“ árekstur væri að ræða en skömmu síðar hljóp ódæðismaðurinn út úr hvítum pallbíl og dró upp loftbyssu og faldi sig fyrir aftan bílinn.

Öllum var brugðið

„Þá brá öllum svakalega. Vinir mínir sem upplifðu hryðjuverkin 11. september 2001 fengu mikið sjokk,“ segir Agla en á þessum tímapunkti var farið aftur með alla krakkana aftur inn í skólann og þeim haldið þar í rúma tvo tíma.

Hjólastígurinn liggur við hliðina á skólalóðinni.
Hjólastígurinn liggur við hliðina á skólalóðinni. Ljósmynd/Agla Gauja

„Við foreldrarnir lágum þarna á götunni áður en lögregla leiðbeindi okkur hvernig við ættum að koma okkur af svæðinu,“ segir Agla en síðar fengu foreldrarnir að fara inn í skólann til barnanna, þar sem þau voru í um klukkustund.

Dóttirin hringdi sem betur fer

Dóttir Öglu hafði aldrei áður heyrt skothvelli á ævi sinni og sá loftbyssuna sem maðurinn hélt á. „Hún varð síðan rosalega hrædd og hringdi grátandi í mig rétt rúmlega þrjú, sem betur fer. Ef ég hefði ekki heyrt í henni þá hefði ég orðið mjög óróleg.“

Samsett mynd frá vettvangi í gærkvöldi.
Samsett mynd frá vettvangi í gærkvöldi. Ljósmynd/Agla Gauja

Agla segir foreldrana hafa fengið skýr og góð skilaboð frá lögreglu um hvað væri í gangi allan tímann í gær. Hún hafi hins vegar ekki búist við því að svona atvik myndi gerast rétt fyrir utan heimili hennar.

„Þetta er ótrúlegt en satt. Þetta er heima hjá mér og þegar ég horfi út um gluggann þá sé ég ekkert nema blikkandi ljós. Maður bjóst aldrei við því að þetta myndi gerast heima.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert