Hafði undirbúið árásina lengi

Ljósmynd af Sayfullo Saipov á blaðamannafundi í New York.
Ljósmynd af Sayfullo Saipov á blaðamannafundi í New York. AFP

Maðurinn sem ók á hóp fólks í Manhattan í New York í gær með þeim afleiðingum að átta manns létust og ellefu særðust hafði undirbúið árásina í margar vikur.

Hann virtist einnig hafa tengsl við fólk sem hafði verið rannsakað í tengslum við hryðjuverkastarfsemi, að því er New York Times greindi frá.

Sumir þeirra sem þekktu manninn, sem heitir Sayfullo Saipov, höfðu óttast það lengi að hann myndi aðhyllast öfgakenndar skoðanir.

Saipov, sem er 29 ára, hafði vakið athygli yfirvalda eftir að hafa verið í sambandi við annan mann frá Úsbekistan sem verið var að rannsaka vegna hryðjuverkatengsla.

Predikari í mosku í Tampa sem Saipov sótti áður en hann flutti til New Jersey hafði áhyggjur af hugarástandi hans.

„Ég sagði við hann: „Þú ert alltof tilfinningasamur”,” sagði predikarinn, sem heitir Abdula.

Hann hvatti Saipov til að lesa fleiri bækur og læra trúarbrögðin sín betur. „Hann lærði trúarbrögðin ekki almennilega. Það er helsta vandamálið í samfélagi múslima,” sagði hann og bætti við að hann hefði ekki búist við því að hann myndi fremja slíkt ódæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert